Grétar Arnþórsson er verkstjóri síldarverkunar hjá Loðnuvinnslunni. Óhætt er að fullyrða að hann sé einn helst síldarsérfræðingur fyrirtækisins. Og núna er mikið að gera hjá Grétari við að stjórna vinnu við 650 tonn af síld sem Hoffell kom með að landi að kvöldi sunnudagsins 17. nóvember. Um er að ræða íslenska síld sem er sumargotsíld og skilur þar á milli norsk- íslensku síldarinnar sem er vorgotssíld. Því eru þessir mánuðir snemma vetrar aðal veiðitími íslensku síldarinnar.
Grétar sagði síldina vera fína og er hún söltuð í flök og bita fyrir Kanada markað sem og Svíþjóð og Danmörk. Gæðaeftirlit með vinnslu á síld, sem og öðrum framleiðslum LVF, er mikið. Teknar eru síendurteknar prufur þar sem gæðin eru skrásett og haldið til haga. Og þegar Grétar var inntur eftir því hvernig gengi í vinnslunni sagði hann að það gengi vel. Vinnslan er vel búin tækjum og vélum og mannshöndin þarf lítið að koma þar að nema til eftirlits og til að mata vélarnar á hráefni. Greinarhöfundur og Grétar ræddu litla stund um breytta tíma í síldarverkun, breytinguna frá þeim tíma að konur stóðu og skáru og söltuðu síld og karlar sáu um önnur störf í kring. Þá var hægt að spjalla saman og gjarnan kallað hátt þegar það vantaði tunnu eða salt. En nútíminn er annar, nú sinna bæði konur og karlar vélunum og vegna hávaða er ekki hægt að spjalla við vinnuna, “en þetta er samt miklu betra” sagði Grétar “hin aðferðin var miklu erfiðari”. Nú hefur starfsfólk á höfðinu græjur til þess að hlusta á það sem það kýs og spjallar saman í kaffi- og matartímum.
Grétar áætlar að Loðnuvinnslan muni salta í u.þ.b 17.000 tunnur á þessu ári en þessi törn mun taka þrjá daga, þá verður hlé á síldarvinnslu þangað til Hoffell kemur aftur að landi með nýjan skammt. Þannig gengur hjólið.
BÓA