Sandfell Su 75 var aflahæsti línubáturinn í maí mánuði með 324,3 tonn. Þetta er líka persónulegt met þeirra Sandfellsmanna en þetta er mesti afli sem þeir hafa fengið á einum mánuði.  Fyrra met var 274 tonn. Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfelli var að vonum sáttur við aflametið og sagði að veðrið  í maí  hefði verið afskaplega hagstætt sjófarendum og þeir því verið á sjó alla dagana í maí. “Við lögðum línuna 31 sinni” sagði Örn og vildi þakka góðu gengi veðurblíðunni og þeirri staðreynd að ekkert tafði þá í sjósókninni eins og bilanir eða annað óvænt.  Aðspurður sagði Örn að auðvitað væri ánægjulegt þegar vel gengi og bætti því við áhöfnin gerði ávalt eins vel og hún gæti  en hann vildi ekki kannast við að þeir væru miklir keppnismenn um borð.  

En nú er sjórinn úfinn og vindur blæs úr norðri og þá er ekki sjólag fyrir báta á stærð við Sandfell svo að nú liggur það bundið við bryggju og bíður átekta. Þegar Örn var inntur eftir því hvað áhöfnin hefði fyrir stafni við slíkar aðstæður sagði hann að þeir væru að dytta að einu og öðru sem gæfist ekki tími til þegar fast væri sótt. Örn skipstjóri hafði líka orð á því að það væri nú all óvenjulegt að komast ekki til sjós í 5 – 6 daga samfellt í júní, og maðurinn sá veit hvað hann syngur í þeim efnum því hann hefur verið sjómaður síðan 1974.

BÓA