Guðmundur Jóelsson hefur starfað sem endurskoðandi fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, og síðar Loðnuvinnsluna, síðan 8. apríl 1980. Og nú, 39 árum síðar, er komið að leiðarlokum. Á síðasta aðalfundi LVF og KFFB gaf hann ekki kost á sér til endurkjörs en í hans stað var kjörinn samstarfsmaður hans til fjölda ára, Jón H. Skúlason löggiltur endurskoðandi.
Guðmundur Jóelsson er fæddur í Reykjavík þann 30. nóvember 1948. Hann ólst upp í Garði og Sandgerði hjá móður sinni og fósturföður. Hann er alinn upp við sjávarsíðuna en segist þó sjaldan hafa migið í saltan sjó. Fósturfaðir Guðmundar rak verslunina Nonni og Bubbi í Sandgerði og snemma var Guðmundur farinn að grúska þar í tölum. Talnaglöggur pilturinn þótti liðtækur í bókhaldi og reikningi. Guðmundur fór í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan vorið 1967 og var þá tvístígandi um hvaða leið hann ætlaði að velja sér til framtíðarframa. Samvinnuskólagengið fólk var vinsælt í atvinnulífinu og þar sem hann hafði áhuga á tölum og hafði alist upp við verslunarrekstur, leitaði hugurinn í þá áttina. Við nánari athugun kom í ljós að endurskoðendur höfðu mikið að gera og afkoman virtist fín og þar með voru örlögin ráðin og starfsvettvangur valinn. Á þessum tíma þurftu menn að komast að hjá löggiltum endurskoðanda í starfsnám auk þess að taka námskeið í Háskólanum til þess að læra að vera endurskoðandi og síðan þurfti að fá löggildingu eftir kúnstarinnar reglum. Þetta gekk Guðmundur í gegnum, hlaut löggildingu vorið 1975 og fór svo að starfa sjálfstætt. Hann hefur í gegn um tíðina séð um uppgjör og framtöl fyrir um eða yfir 300 kennitölur. Og þar sem við spjölluðum um endurskoðun, reikningshald, uppgjör og framtöl kom fram, að þetta getur verið afar persónulegt starf. Fólk kemur til að fá aðstoð við fjárhagsmál sem eru persónuleg og “stundum verða fundirnir eins og sálfræðitímar. Fólk opnar sig og talar um sín innstu hjartans mál” segir Guðmundur og bætir því við að heilt yfir hafi ævistarfið hans verið gríðarlega víðtækt.
“Og manstu uppá dag hvenær þú byrjaðir að vinna fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga”? spyr greinarhöfundur. “Já, ég held dagbók og þar gat ég nú flett því upp. Við Gísli Jónatansson vorum bekkjarbræður á Bifröst og hann hringir í mig einn daginn og segir mér að endurskoðandi Kaupfélagsins hafi verið að hætta og að það vanti nýjan”. “Og hvenær er það”? spurði ég, “ Á morgun” svaraði Gísli “og daginn eftir flaug ég austur í fyrsta sinn og hef síðan komið u.þ.b sex sinnum á ári síðan í nokkra daga í senn”. Að auki hefur Guðmundur mætt á aðalfundi og við önnur tilefni þar sem þurfa þykir þannig að þótt að greinarhöfundur sé langt frá því að vera talnaglögg og kunna reikningskúnstir, þá segir reiknivélin í símanum mér að Guðmundur sé búinn að koma hátt í 250 ferðir til Fáskrúðsfjarðar á s.l. 39 árum.
“Mér þykir orðið afskaplega vænt um þetta pláss, hér á ég orðið marga vini og kunningja og hér áður fyrr fór ég í fótbolta með strákunum þegar ég dvaldi hér” segir hann dreymandi á svip því að fótboltadagar Guðmundur Jóelssonar eru liðnir. Guðmundur rifjar líka upp dvöl hér á Fáskrúðsfirði eitt fallegt sumar. Hann kom hingað með fjölskylduna þegar stelpurnar hans voru litlar og þau fóru í Skrúðinn með Baldri bónda Rafnsyni á Vattarnesi. “Það er okkur öllum mjög eftirminnilegt” sagði endurskoðandinn og bætir við: “Ég er ákaflega þakklátur fyrir kynni mín af fólki hér á Fáskrúðsfirði, það er mér mikils virði að mynda góð tengsl við gott fólk”.
Guðmundur er kvæntur Önnu Margréti Gunnarsdóttur grunnskólakennara og eiga þau þrjá dætur og tvö barnabörn og eitt á leiðinni. “Ég fann hana Önnu mína í Kópavoginum” segir Guðmundur kankvís. Og það hefur verið happafundur því saman hafa þau lagt fjóra áratugi að baki.
Er Guðmundur er inntur eftir áhugamálum sínum svarar hann að bragði: “Það er útivist allskonar. Ég hef gengið um fjöll og firnindi síðan ég var ungur maður. T.a.m vann ég á Egilsstöðum árið 1975 og þá gekk ég um allar víkurnar í Borgarfirði og á hin ýmsu fjöll í fjórðungnum líka. Þá var ekki eins vinsælt að ganga um óbyggðir eins og það er í dag. Toppnum náði ég þó ekki fyrr en árið 2010 þegar mér tókst að klífa Hvannadalshnjúk. Því miður hefur dregið mjög úr gönguferðum í seinni tíð en stefnan er klárlega að auka þær aftur ef heilsan leyfir“.
Svo segist Guðmundur líka vera í Bridgeklúbbi. Klúbbur sem gengur undir nafninu Krummaklúbburinn og hefur verið starfandi síðan 1964 og okkar maður er að vonum formaður og nefnist Stórkrummi. “Minnsti maðurinn í klúbbnum er Stórkrummi” segir Guðmundur hlæjandi og við vorum sammála um það að manneskja þyrfti ekki að vera hávaxin til að vera “stór”. “Svo eigum við hjónin hús á Skáni í Svíþjóð ásamt nokkrum öðrum og þar dveljum við um tíma á hverju sumri. Það er dásamlegt að vera þar og svo búa tvær dætur okkar í Kaupmannahöfn og barnabörnin og þá er styttra á milli” bætir hann við.
Guðmundur stefnir að því að fara á eftirlaun í haust. Nú er hann að koma viðskiptavinum sínum fyrir hjá nýjum aðilum og hann ætlar að sinna áfram uppgjörsmálum fyrir LVF og KFFB um tíma.
Allt tekur enda um síðir, líka starfsævi Guðmundur Jóelssonar, en hann er hvergi nærri hættur. Nú tekur við tíminn þar sem áhugamálin fá pláss, ferðalög, tíminn til að horfa lengur og betur á barnabörnin og tíminn til að njóta.
Loðnuvinnslan og Kaupfélagið þakka Guðmundi fyrir hans góðu störf og óska honum velfarnaðar, gæfu og gengis.
BÓA