Á síðasta aðalfundi Loðnuvinnslunnar , sem haldinn var föstudaginn 17.maí s.l  voru samfélagsstyrkir afhentir.  Eftirfarandi félagasamtök fengu styrk.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir króna og sagði Steinar Grétarson fulltrúi félagsins í þakkarorðum sínum að félagsmenn kynnu afar vel að meta styrkinn og að hann kæmi að vonum vel.

Franskir dagar fengu 1 milljón króna til þess að halda okkar árlegu bæjarhátíð, við þeim styrk tók María Ósk Óskarsdóttir.

Fimleikadeild Leiknis fékk 1 milljón króna til tækjakaupa. Valborg Jónsdóttir tók á móti styrknum fyrir hönd Fimleikadeildarinnar og sagði hann vera afar kærkominn þar sem allur búnaður til fimleikaiðkunnar sé dýr en deildin vex og dafnar og hefur sífellt þörf fyrir nýjan búnað.

Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón krónur í rekstur á björgunarbátnum Hafdísi. Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla tók á móti styrknum og sagði hann það ómetanlegt fyrir björgunarsveitina að hafa slíkan bakhjarl sem Loðnuvinnslan hefur reynst Geisla. 

Þá fékk knattspyrnudeild Leiknis  styrk að andvirði 8 milljónir króna og er sá styrkur frábrugðinn hinum að því leiti að ekki er um hreinan peningastyrk að ræða heldur er búið að reikna saman í fyrirgreinda tölu allt sem Loðnuvinnslan lætur af hendi rakna til Knattspyrnudeildarinnar eins og lán á rútu, búninga kaup og fleira í þeim dúr. Hans Óli Rafnsson gjaldkeri Knattspyrnudeildar Leiknis tók á móti styrknum að sagði það afar dýrmætt að njóta styrktar og velvilja LVF og sagði að  án hans væri illgert að reka fótboltalið í 2.deild og tók sem dæmi að ferðakostnaður liðsins árið 2018 hefði verið 10 milljónir króna. 

BÓA

Handhafar styrkja ásamt Elvari Óskarssyni stjórnarformanni LVF