Það þykir nokkrum tíðindum sæta þegar sjómaður lætur af störfum eftir 40 ár á sama skipi. Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafelli er stiginn í land og hefur látið stjórnartaumana á Ljósafelli í annarra hendur. Þannig að frá og með þessari stundu er hann fyrrverandi skipstjóri.
Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig þessi tímamót færu í manninn og spurði bara hreint út. “ Þau leggjast býsna vel í mig “ svaraði hann hlæjandi, “ég er þakklátur og glaður og ég hef verið heppinn, það hefur gengið nokkuð vel og ég hef aldrei orðið fyrir manntjóni og það er ekki sjálfgefið” bætti hann við alvarlegur í bragði.
“Og hvað tekur nú við”? Lá beinast við að spyrja að næst. “Ég á haug af barnabörnum sem ég hef hug á að sinna og fylgjast með þeim vaxa úr grasi” svaraði Ólafur og bætti því við aðþegar hann var yngri og með sín eigin born lítil, hefði hann haft minni tíma, þá var verið að koma sér upp húsi og heimili og það krafðist þess að hann ynni mikið eins og algengt er. “Svo er fjölskyldan að fara tilDanmerkur í sumar og svo eru við hjónin að skipta um hús svo að það er nóg framundan” sagðiÓlafur.
Tal okkar snérist stutta stund um verkefni sumarsins en tók svo þá stefnu að spjalla um komandi vetur, þegar myrkrið, kuldinn og snjórinn setja mark sitt á umhverfi og manneskjur og Ólafur var inntur eftir því hvort að hann kviði því að mæta þeim árstíma án þess að sækja sjóinn reglulega, en hann sagði svo ekki vera. “ Ég hef bara meiri tíma til að fara á skíði og svo á ég svakalega fínan snjóblásara” sagði hann léttur í lund og greinarhöfundur gerir sér í hugarlund að nýjir nágrannar í Króksholtinu, þangað sem þau hjón eru að flytja, muni eiga eftir að sjá skipstjóra á eftirlaunum ganga oft og títt um götuna með blásarann á undan sér.
Ljóst er á spjalli okkar Ólafs að hann tekur starfslokunum fagnandi, sér þau sem nýjan kafla í sínu lífi og er bara spenntur að fletta síðunum í þeim kafla. Það má svo glögglega sjá í orðunum sem hann notaði þegar við kvöddumst. “ Ég kvíði því ekki að eldest með henni Jónu minni”.
Þetta fallega ljóð eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson sem hann orti í tilefni sjómannadagsins 1953 er að þessu sinni tileinkað Ólafi Helga og öllum þeim sjómönnum sem hann hefur starfað með á 40 ára veru á Ljósafelli SU 70.
Til sjómanna
Nú skal þakka þeim hlýtt,
sem að út hafa ýtt
á hinn ólgandi en gjöfula sæ,
til að fyrra oss nauð,
til að færa oss brauð,
til að fegra og stækka vorn bæ.
Og þeirra skal minnst,
sem úr höfninni hinnst,
sigldu helþrunginn stórviðrisdag.
Fyrir börn sín og víf,
hvar þeir létu sitt líf,
fyrir lands sins og alþjóðar hag.
Loðnuvinnslan þakkar Ólafi Helga Gunnarssyni fyrir hans góðu störf í þágu fyrirtækisins og óskar honum velfarnaðar.
BÓA