Miðvikudaginn 18.desember voru haldnir jólatónleikar í Félagsheimilinu Skrúði. Var þar á ferðinni hópur af söngvurum og hljóðfæraleikurum sem fóru um landið með tónleika undir yfirskriftinni Jólin til þín. Hljómsveitin var skipuð einvalaliði hljóðfæraleikara og söngvararnir voru þau Eiríkur Hauksson, Regína Ósk, Rakel Páls og Unnur Birna.  Er óhætt að segja að tónleikarnir hafi verið þeir glæsilegustu og jólastemmningin einlæg.

Loðnuvinnslan, ásamt Starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, bauð öllu sínu starfsfólki á tónleikana og í fordrykk á undan.  Var þátttakan góð eða um 90 manns frá fyrirtækinu auk annarra gesta að sjálfsögðu. Heildarmæting á tónleikana var því nokkuð góð.  Haft er eftir allmörgum tónleikagestum að kvöldið hafi verið afar ánægjulegt og skemmtilegt, tónlistin hafi verið “unun ein á að hlíða” eins og haft er eftir ónefndum gesti.

Er það fastur liður í aðdrananda jóla hjá mörgum að fara á tónleika, að hlusta á jólalögin flutt af góðu tónlistarfólki er upplifun sem eykur á vellíðan og að gleyma sér eina kvöldstund við tónanna klið er slakandi og skemmtilegt. Að fá tónleikana Jólin til þín, hingað í heimabæinn okkar á desemberkvöldi  var afskaplega vel þegið og óhætt er að fullyrða að tónleikagestir hafið farið heim með jólagleði í hjarta.

BÓA