Um nýliðna helgi fór Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar til Gdansk í Póllandi. Flogið var frá Egilsstöðum fimmtudaginn 25.október og heim aftur mánudaginn 29.október. Voru um það bil 90 manns með í för, félagsmenn og makar. Gdansk tók vel á móti ferðalöngum, veðrið var þokkalegt haustveður og borgin heilsaði hlýlega.
Hjónin Kristín Hanna Hauksdóttir og Hjálmar Heimisson eru bæði í Starfsmannafélaginu og að auki er Kristín Hanna í stjórn Starfsmannafélagsins og kom að skipulagningu og undirbúiningi fararinnar. Aðspurð sögðu Kristín Hanna og Hjálmar að þetta væri fyrsta ferðin þeirra til Póllands og það hefði komið þeim skemmtilega á óvart hversu hrein og falleg borgin reyndist vera. Þau höfðu orð á því hvað byggingastíll borgarinnar væri fallegur og sér í lagi í gamla bænum þar sem falleg og reisuleg hús umlykja torgið. “Við fórum líka í kirkjuna Oliwa þar sem leikið var á orgelið og það var rosalega flott” sögðu þau Kristín Hanna og Hjálmar. En orgelið sem um ræðir skartar tæplega átta þúsund pípum ýmist úr tini eða tré, þar sem minnsta pípan er á stærð við eldspýtustokk en sú stærsta er 10 metra löng.
Steinþór Pétursson og Guðný Elísdóttir voru í sinni fyrstu ferð með Starfsmannafélaginu og þegar greinarhöfundur króaði þau af við morgunverðarborðið tóku þau vel í stutt spjall. “Þetta er búið að vera góð ferð” sögðu þau hjónin og bættu því við að þau hefðu komið með “galopinn hugann” því þau hefðu ekki haft neinar fyrir fram ákveðnar hugmyndir um Pólland. Þau höfðu einnig orð á því að borgar umhverfið allt væri vinalega og viðmót heimamanna huggulegt. Þegar þau Guðný og Steinþór voru innt eftir því hvort að eitthvað hefði staðið uppúr í ferðnni nefndu þau safnið um seinni heimstyrjöldina (Museum of the Second World War – Muzeum II Wonjy Swiatowej) sem er á heimsmælikvarða sambærilegra safna, eftir því sem ferðamannahandbækur upplýsa. “Svo höfum við haft það eins og fólk gerir gjarnan í útlöndum, gengið um götur, kíkt í búðir og borðað mikið af góðum mat” sögðu þau Steinþór og Guðný.
Á sunnudagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum í mat. Veitingahúsið sem varð fyrir valinu var í fallegu gömlu húsi og þar var boðið uppá góðan mat og afar fallega fram borin. Síðan var tækifæri á mánudagsmorgni til að hlaupa í verslanir og sækja það sem uppá vantaði, fá sér gönguferð í bæinn, setjast á veitingahús eða bara kúra frameftir áður en haldið var heim á leið eftir vel heppnaða ferð til Gdansk í Póllandi.
BÓA