María Óskarsdóttir, Linda Kristinsdóttir, Jóna Björg Jónsdóttir og Jónína Óskarsdóttir

Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem haldinn var í Wathnessjóhúsinu þann 15.maí voru félagasamtökum og stofnunum færðar góðar gjafir.  Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði voru færðar 2 milljónir króna til kaupa á tækjum og sérfræðiþjónustu.  Jónína Óskarsdóttir fagstjóri hjúkrunar á heilsugæslusviði, tók á móti styrknum fyrir hönd Heilsugæslustöðvarinnar. Sagði Jónína að stuðningur Kaupfélagsins væri gríðarlega mikilvægur og gagnast afar vel. „Tækjakosturinn á Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði er einn sá besti sem völ er á“ sagði Jónína um leið og hún þakkaði fyrir velvildina.

Þá var félagsskapnum Franskir dagar færðar 800 þúsund krónur til þess að halda árlega bæjarhátið okkar Fáskrúðsfirðinga.  María Óskarsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Franskra daga og sagði að stuðningur Kaupfélagsins og Loðnuvinnslunnar, sem lagði einnig 800 þúsund krónur til hátíðarinnar,  skipta sköpum.  „Styrkurinn frá þessum tveimur aðilum gerir okkur kleift að halda hátíðina“ sagði María og bætti því við að  Kaupfélagið og Loðnuvinnslan væri lang stærsti stuðningsaðili Franskra daga.

Félagsskapur heimamanna um byggingu Fjölskyldu- og útivistagarðs á Fáskrúðsfirði hlaut 1.5 milljónir króna í styrk til sinnar starfssemi.  Hefur uppbygging Fjölskyldugarðsins verið styrkt af einstaklingum og fyrirtækjum í samvinnu við Fjarðabyggð.  Linda Kristinsdóttir tók við styrknum fyrir hönd félagsskaparins.  Hrefna Eyþórsdóttir er forsvarskona fyrir Fjölskyldu- og útivistagarðinn og aðspurð um þýðingu þess að fá styrk sem þennan sagði hún: „Við erum mjög þakklát. Að fá þennan styrk gerir það að verkum að við náum að klára fjármögnun og uppsetningu ærslabelgsins, sem er fyrsta verkefnið okkar. Fjölskyldu- og útivistagarðurinn á eftir að skapa fullt af gleði og gæðastundum fyrir alla aldurshópa og gera fallega Fáskrúðsfjörð að enn betri stað til að búa á og heim að sækja“.

Hollvinasamtök félagsheimilisins Skrúðs fengu styrk uppá 1 milljón króna.  Jóna Björg Jónsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Hollvinasamtakanna.  Sagði Jóna að styrkurinn skipti sköpum fyrir Skrúð og kæmi ríkulega á móti framlagi Fjarðabyggðar til uppbyggingar okkar góða félagsheimilis. „Þetta er afar myndarlegur styrkur“ sagði Jóna „ og við erum mjög þakklát honum“.  Þá tíundaði Jóna stuttlega það sem gert hefur verið í Skrúð hin síðari ár til endurnýjunar og nefndi meðal annars nýja glugga sem eru að verða að meirihluta nýir.  Þá nefndi hún einnig að huga þyrfti að því að lagfæra aðgengi fyrir fatlaða í Skrúð þar sem ekki var hugað að slíku þegar húsið var byggt árið 1966.