Norska fjölveiðiskipið Østerbris kom að landi á Fáskrúðsfirði í dag með 2250 tonn af kolmunna. Mun þetta vera fyrsti kolmunnaaflinn sem landað er á Íslandi á þessu ári. Fiskurinn er vænn og var veiddur í landhelgi Skotlands, en Norðmenn eru með samning við Evrópusambandið um veiðar í skoskri lögsögu. Að sögn Tronds Østervold skipstjóra tók það um 36 tíma að ná þessum afla. Við tók svo 2 1/2 sólarhringa sigling á Fáskrúðsfjörð þar sem aflanum var landað.
Østerbris er 2800 tonna skip, byggt í Tyrklandi árið 2014 og ber þess glögglega merki að ekkert hefur verið til sparað við byggingu og innréttingar í þessu fallega skipi. Útgerðin er fjölskyldufyrirtæki, stofnað af föður þeirra bræðra 1998 og heimahöfn Østerbris er á Austevoll, sem er eyja við vestuströnd Noregs, skammt frá Bergen. Skipinu stýra fjórir bræður, tveir og tveir í senn því á Østerbris eru tvær áhafnir sem sinna veiðum til skiptis. Í þessum velheppnaða kolmunnatúr voru við stjórnartaumana bræðurnir Trond Østervold skipstjóri og Cristian Østervold fyrsti stýrimaður. Bræðurnir buðu greinarhöfundi að ganga um borð og skoða skipið. Athygli vakti hve allt var í ljósum og fallegum litum, í setustofu áhafnarmeðlima voru falleg málverk á veggjum og rafknúinn arineldur á marmaravegg. Sagði Christian að sérstaklega hefði verið beðið um að hafa ljósa liti á innréttingum, þiljum og húsgögnum því það væri betra fyrir lundina. Um borð eru líka öll tæki og tól fyrsta flokks, hægt er að líta myndir úr sögu útgerðarinnar og þeir hafa líka líkamsræktaraðstöðu um borð og talandi um hana sögðu þeir bræður “við notum hana nú ekki mikið” og litu kankvísir hvor á annan.
Á skipi eins og Østerbris eru 9 til 10 menn um borð í einu, en við skipið starfa tvöfallt fleiri vegna skiptakerfisins sem er við lýði og er sami mannskapur búinn að starfa við skipið árum saman. “Það hættir enginn, þetta er góð vinna sem gefur öruggar tekjur og góð frí á milli” sagði Trond aðspurður um áhöfn sína. Þegar bræðurnir voru inntir eftir því hvað þeir gerðu í frístundum þá kom það ekki á óvart að þeir sögðust stunda skíðamennsku líkt og megin þorri Norðmanna og sinna fjölskyldum sínum.
Af hverju komið þið með aflann til Loðnuvinnslunnar? “Friðrik (Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF) bauð best” svaraði Trond. “Ég er mjög ánægður með það því það er alltaf svo gott að koma til Fáskrúðsfjarðar” bætti hann við. “Hér er tekið vel á móti okkur, öllum okkar þörfum og óskum er sinnt og við finnum vel að við erum velkomnir” sagði Trond skipstjóri og því til staðfestingar fékk Cristian sér stóra tertusneið af tertunni sem LVF hafði fært áhöfninni við komuna. “Þetta er skemmtilegur íslenskur siður, við fáum aldrei tertu þegar við löndum í Noregi” sögðu skipstjórnendurnir á Østerbris brosandi.
Reiknað er með að það muni taka um 24 klukkustundir að landa aflanum úr Østerbris og þegar því er lokið fer skipið til loðnuveiða og hvar þeim afla verður landað er óvíst. Því ræður eftirspurn og kaupverð.
Østervold fjölskyldan getur verið stolt af Østerbris, þetta er fallegt skip og bræðurnir Trond og Cristian bera greinilegan hlýhug til áhafnar og skips, það skynjaði greinarhöfundur skýrt eftir að hafa gengið um skipið í þeirra félagsskap. Og þegar nóg var komið var það skipstjórinn Trond sem fylgdi gestinum alla leið í land og rétti fram hjálparhönd til að auðvelda landgönguna.
BÓA