Sandfellið kom að landi í dag með 10 tonn og þar með er heildarafli Sandfellsins, undir eignarhaldi Loðnuvinnslunnar, kominn í 4000 tonn. Loðnuvinnslan festi kaup á Sandfellinu og hóf útgerð á því í gegn um dótturfyrirtækið Hjálmar, þann 6. Febrúar 2016. Vel hefur gengið að afla hjá Sandfellinu og þrátt fyrir tveggja mánaða verkfalla sjómanna í síðasta ári er aflinn kominn í 4000 tonn. Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfellinu var inntur eftir því hverju hann þakkaði þetta góða gengi og svaraði hann því til að það væru nokkrir samverkandi þættir; gott skipulag, góð útgerð, góð kvótastaða og góður fastur mannskapur um borð. Og svo bætti hann því við að það þyrfti aldrei að stoppa því á Sandfellinu eru tvær áhafnir sem róa í tvær vikur í senn. Þegar Örn var spurður að því hvort að það hefði verið markmið að fiska í kring um 2000 tonn á ári sagði hann: „markmiðið er alltaf að gera eins vel og hægt er“.
Aflinn sem Sandfell kom með að landi í dag er að megin uppistöðu þorskur sem fer til vinnslu í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.
Að lokum er full ástæða til þess að óska áhafnarmeðlimun á Sandfellinu innilega til hamingju með áfangann og óska þeim áframhaldandi velgengni.
BÓA