Nú þegar lægðirnar koma hver á eftir annarri með tilheyrandi veðrum, vindum og úrkomu og sjórinn við strendur og firði er úfinn og grár, verður manni hugsað til sjómanna á hafi úti.  Það er ekki alltaf dans á rósum að vera sjómaður við Íslandsstrendur.

Ljósafell landaði 100 tonnum mánudaginn 8.janúar s.l og hélt síðan til veiða s.l þriðjudag í nokkuð vondu veðri og sagði Hjálmar að siglingin á miðin í Lónsdýpinu hefði tekið átta klukkustundir í stað sex vegna veðursins. „En veðrið var svo gengið niður þegar við komum á miðin svo að veiðin gekk nokkuð vel“ sagði Hjálmar.

Ljósafell svo kom til hafnar á Fáskrúðsfirði aðfaranótt 12.janúar með u.þ.b. 50 tonn af blönduðum afla, 20 tonn af karfa,  u.þ.b 20 tonn af þorski og 10 tonn af ýsu og ufsa.  Er þeim afla landað í dag.  Aðspurður sagði Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri að veðrið hefði verið „leiðinlegt“ á heimleiðinni.

Það bar það til tíðinda í þessum túr Ljósafells að þeir fengu hræ af hval í trollið.  „Lyktin var alveg hræðileg“ sagði Hjálmar, „þeir sem köstuðu upp yfir borðstokkinn gerðu það ekki vegna veðurs og sjóveiki heldur vegna fnyksins af hval-hræinu“ bætti Hjálmar við brosandi.  Ljósafells menn náðu að aðskilja hræið frá aflanum og skila því aftur í hafið þar sem það flaut á yfirborðinu og varð að veisluborði fyrir fuglana.

BÓA