Ingólfur Hjaltason

Í lágreistu húsi á athafnasvæði Loðnuvinnslunnar er vélaverkstæði. Í daglegu tali gengur það undir nafninu Smiðjan. Í Smiðjunni vinna tíu starfsmenn og fremstur meðal jafningja þar er verkstjórinn Ingólfur Hjaltason. Mikið hefur mætt á starfsmönnum Smiðjunnar síðustu misseri rétt eins og öðrum starfsmönnum LVF og segir Ingólfur það vera óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinna umsvifa fyrirtækisin. “Það eru næg verkefnin og ég gæti hæglega bætt við nokkrum starfsmönnum, en fólk með iðnmenntun er ekki á hverju strái” segir Ingólfur.

Verkefni þeirra Smiðjumanna eru af margvíslegum toga, en eðli málsins samkvæmt tengjast verkefnin vélbúnaði og málmvinnslu. “Okkar hlutverk er að halda við öllum vélbúnaði fyrirtækisins, í bræðslunni, fiskvinnsluhúsunum og skipunum. Og svo er alltaf eitthvað um nýsmíði líka. Og svo reynum við að þjóna bæjarbúum eins og hægt” útskýrir verkstjórinn þegar greinarhöfundur upplýsir vanþekkingu sína á starfsemi vélaverkstæða. Aðspurður að því hvort að allir starfmennirnir væru með iðnmenntun sagði hann ekki svo vera en sagði: “þetta eru flottir strákar, þeir eru duglegir og geta allt”.   “Sumir eru betri í gera við vélar, aðrir eru betri í að smíða.” Og uppá vegg í skrifstofu Ingólfs má líta viðurkenningaskjöl um þátttöku starfsmanna í hinum ýmsu námskeiðum.

Ingólfur er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði. Hann er einn af átta systkinum. Hér í þessum firði hefur hann dvalið mestan part lífs síns og segir að hann sé “heimaríkur og mikill Fáskrúðsfirðingur”. Hann sagðist líta á það sem forréttindi að geta unnið svona nálægt heimilinu og geta gengið í vinnuna.

Hann stundaði sitt nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Neskaupsstað og Iðnskólanum Í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan. Ingólfur sagði það hafa verið hálfgerð tilviljun að hann hóf nám í vélvirkun á sínum tíma en þannig hafi það verið að þegar hann var 19 ára gamall hafi Jón Erlingur (Guðmundsson, þá útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga) komið að máli við sig og sagt rétt sí svona: “finnst þér nú ekki kominn tími til að hætta þessu rugli Ingólfur minn. Viltu ekki koma á samning í smiðjunni”? Var Jón Erlingur þarna að vísa til lifnaðarhátta Ingólfs sem ungur maður. Ingólfur skellti sér á samning hjá Alberti Kemp og hefur verið starfandi hjá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni æ síðan eða í heil 42 ár.

“Mér hefur liðið vel hjá fyrirtækinu og aldrei velt því fyrir mér í neinni alvöru að flytja mig um set og það tekur því nú ekki úr þessu” segir Ingólfur og hlær við. En þessi 61árs gamli maður er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og getur eflaust unnið einhverja áratugi til viðbótar kæri hann sig um.

Ingólfur hefur alla tíð verið mikil áhugamaður um knattspyrnu. Hann spilaði fótbolta með Leikni auk þess að spila t.d. í Færeyjum eitt sumar. Þar að auki starfaði hann sem dómari í flestum deildum knattspyrnunar í 30 ár. Þegar hann setti skóna á hilluna og hætti að starfa sem dómari hlaut hann gullmerki KSÍ fyrir vel unnin stöf við dómgæslu. Á heimasíðu KSÍ er þetta sagt um gullmerkið: “Heiðursmerki þetta veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingamikil störf.” Svo þarna hlaut Ingólfur mikinn heiður og var vel að honum kominn.

En stundum á Ingólfur frí, sem betur fer, og hvað vill hann nota þann tíma til “ég hef unun af því að ganga út í náttúrinni, fara á fjöll, hjóla og hreyfa mig . Ég fer í líkamsræktastöðina nokkrum sinnum í viku og ég fer í sund. “Ég er svo ofvirkur, ég þarf alltaf að vera á hreyfingu” sagði Ingólfur brosandi. Og þá loks rann upp fyrir greinarhöfundi hvað ungi maðurinn átti við þegar hún spurði hann hvar Ingólfur væri þegar hún gekk inn í Smiðjuna en hann svaraði: “ADHD hraðlestin þaut hér framhjá rétt áðan”.

Svo hefur Ingólfur græna fingur. Hann ræktar blóm og ávexti í gróðurhúsi og hlúir að trjám. “Svo er gaman að ferðast og sér í lagi á framandi staði”. Kína, Bali, Kúba, Bahama eru meðal þeirra landa sem hann hefur heimsótt. Og honum þykir líka gaman að ferðast innanlands með hjólhýsið í eftirdragi. “Þá er alveg dásamlegt að fá barnabörnin í heimsókn” segir hann og fær þetta blik í augað sem afar og ömmur gjarnan fá þegar talið berst að barnabörnum.

 

Þú hlýtur nú að hafa frá einhverju skemmtilegu að segja eftir 42 ár á sama vinnustað Ingólfur? “já, já,” svarar hann og segir svo frá: “ Eitt sinn var ég að brasa eitthvað hér frammi og var alveg sótsvartur á höndunum þegar Tryggvi Sigmundsson gengur hér inn og segir að bragði: Ingólfur, á ég ekki að merkja á dagatalið hjá þér? Ég hváði við og hann bætti við: Já, á ég ekki að merkja á dagatalið að þú ert að vinna!” Og önnur saga: “Oft hafa verið hér í vinnu menn sem hafa verið spaugsamir mjög og uppátækjasamir. Eitt sinn voru tveir ungir menn að vinna hér og þeir voru alltaf eitthvað að rugla í mér og einn daginn spurðu þeir: Ingólfur, megum við ekki hafa kanínur hér? Ég svaraði snarlega: jú, jú. Svo vissi ég ekki af fyrr en þeir voru búnir að setja upp hænsanet undir einhvern bekkinn og koma þar fyrir kanínum. Það hvarlaði aldrei að mér að þeir væru að tala í alvöru þegar þeir spurðu.” Og til gamans hafði greinarhöfundur hafði uppá öðrum unga manninum sem hann talaði um og spurði hvað hefði orðið um kanínurnar og það stóð ekki á svarinu: “Ingólfur bannaði okkur að hafa þær svo þær fengu nýtt heimili”.

“Dagur án hláturs er dagur án tilgangs” sagði Charlie Chaplin, og ef sú speki er rétt hafði dagurinn sem greinarhöfundur spjallaði við Ingólf Hjaltason sannarlega haft ríkan tilgang því að hlátur hafði ómað í litla kontór verkstjórans þegar hann rifjaði upp miklu fleiri skemmtilegar sögur af lífinu í Smiðjunni.

 

BÓA