Grétar Þór Arnþórsson

Síldin er komin“ var hrópað á árum áður þegar síldarbátar komu að landi. Og enn kemur síldin þó ekkert sé hrópað,  því að þrátt fyrir breytta tíma er síldin enn verðmæt afurð.

Á dögunum kom Hoffellið að landi með rúm 400 tonn af norsk- íslenskri síld.  Að þessu sinni fer aflinn allur til söltunar.  Í gegnum vinnsluna geta farið um 180 tonn á dag miðað við að unnið sé í 12 tíma.

Grétar Arnþórsson er verkstjóri síldarverkunar hjá Loðnuvinnslunni og hefur starfað við sjávarútveg nánast allan sinn starfsferil ýmist í landi eða á sjó.  Grétar er, að öðrum ólöstuðum, einn helsti síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar en þekkingarinnar hefur hann aflað á áratuga langri starfsævi innan um silfur hafsins, eins og síldin var gjarnan kölluð.  Aðspurður sagði Grétar að síldin væri góð að þessu sinni þrátt fyrir að vera nokkuð feit og bætti því við að stundum væri erfitt að vinna feita síld í vélunum, hún vildi festast meira heldur en mögur síld, en að sama skapi væri hún mikið bragðbetri.  Eftir því sem greinarhöfundur og Grétar best vita er Loðnuvinnslan eina stöðin á landinu sem ennþá saltar síld í einhverju magni.  En saltsíld er ekki eina afurðin sem Loðnuvinnslan framleiðir, heldur er síldin líka lögð í edik, krydd eða salt, allt eftir því hvað kaupandinn óskar.   Og þótt fátt minni á gamla tíma við vinnu síldar í dag geta þeir sem áður stóðu á síldarplönum auðveldlega horfið aftur í tímann í huganum þegar lyktin af kryddsíldinni leggur fyrir vitin.

Loðnuvinnslan festi kaup á nýjum vélum s.l. sumar til þess að flaka síld. Eru þessar vélar afar fullkomnar og þarf mannshöndinn ekkert að koma þar að.  En þrátt fyrir sífellt aukna tækni og sjálfvirkni við vinnsluna eru ennþá störf sem eru nokkuð erfið, en í fyllingu tímans munu þau eflaust hverfa á braut.  Vélar sjá um að hausskera og flaka síldina, síðan fer hún í saltpækil í körum þar sem að hræra þarf í annað slagið og er það gert handvirkt. Eftir það er síldin færð í tunnur sem í dag eru úr plasti en trétunnurnar eru alveg horfnar á braut.

Eins og áður sagði er Grétar ekki nýr í þessum bransa.  Hann byrjaði að vinna á síldarplani á hinum svokölluðu síldarárum þegar hann var tíu ára gamall.  Og eitt af hans hlutverkum var til dæmis að boða mannskapinn til vinnu með því að hlaupa um bæinn og kalla „síldin er komin“. „Stundum þurfti maður að nota spýtu og renna henni eftir bárujárninu á húsunum til að ræsa“ sagði Grétar hlæjandi, „þá voru engir símar og þetta var leiðin“ bætti hann við.  Síðan hafði hann það hlutverk að færa  konunum( í þá daga voru það nánast eingöngu konur sem hausskáru síldina og settu í tunnur) tómar tunnur og salt. Aðspurður að því  hvort að rómantíkin sem mörgum fannst tilheyra síldarárunum sé enn til staðar segir Grétar að svo sé ekki „ég verð í það minnsta ekki var við það“ sagði hann sposkur „nú er svo mikill hávaði í vélunum að það myndi enginn heyra í harmonikkunni“ . Og er auðvitað að vísa til þess þegar dansað var á síldarplönum við harmonikkuleik hér áðurfyrr.

En hvað gerir Grétar Arnþórsson í frístundum? „Það skemmtilegasta sem ég gerði þegar ég var yngri var að vera í fótbolta, en nú er ég ekki nógu fljótur að hlaupa til þess að fá að vera með“ svaraði hann.  Grétar á líka gróðurhús og hefur gaman af því að rækta eitt og annað, hann er t.a.m. með jarðaber, plómur og eplatré sem gefa ávöxt og þegar hann er inntur frekar eftir því sem fellur af eplatrénu hans svarar hann að bragði: „það koma epli, en ég gæti ekki lifað af eplarækt“.   Þá hefur Grétar unun af því að eyða tíma með sínu fólki og að ferðast um landið með hjólhýsið og fjölskylduna finnst honum skemmtilegt og endurnærandi fyrir sál og líkama.  Og sjálfsagt veitir ekkert af því að endurnæra sál og líkama þegar menn eru í streitufullu starfi og leggja marga klukkustundir að baki á hverjum degi.

Þrátt fyrir að enn væri eitthvað eftir af vínarbrauðinu og kaffinu var spjallinu lokið.  Verkstjórinn hafði aðeins tekið af sér skóna, sat í vinnugallanum með hárnetið á höfðinu meðan á spjallinu stóð, en annríkið í vinnslusalnum kallaði hann til sín og kveðja greinarhöfundar hvarf í hávaðanum frá vélunum.

BÓA