Í tilefni að nýliðnum Sjómannadegi fannst greinarhöfundi við hæfi að spjalla við eina af hetjum hafsins.  Fyrir valinu var maður sem hefur stundað sjóinn síðan hann var 17 ára gamall og er hokinn af reynslu þegar kemur að sjómennsku.  Maðurinn heitir Ólafur Helgi Gunnarsson og er skipstjóri á Ljósafelli SU 70.  Ólafur er fæddur á Eskifirði  árið 1953, hann ólst upp í Sigmundarhúsum í Helgustaðarhreppi ásamt foreldrum sínum og tíu systkinum og geta má nærri að oft hafi verið fjör á bænum með níu drengi og tvær stúlkur. Ekki kannast skipstjórinn við það að hafa haft löngun til þess að verða bóndi þrátt fyrir að vera alinn upp í sveit en vorið 1970, þegar drengurinn var nýorðinn 17 ára fylgdist hann með elsta bróður sínum á vertíð í Sandgerði.  Aðspurður hvort að famtíðin hefði verið ráðin þarna suður með sjó vorið 1970 svaraði Ólafur: „það var eitthvað sem heillaði, en það var svo sem ekki meðvituð ákvörðun“.  Næstu misseri fór Ólafur  m.a. á vertíð í Eyjum, Eskifirði og á Grálúðuveiðar á gamla Búðafellinu.  Þá var hann stýrimaður á Önnu og eitt sumar í vélarúminu á Hoffellinu.   Árið 1974 útskrifast Ólafur úr Stýrimannaskólanum og skellir sér þá í útgerð í nokkur ár með góðu fólki, fyrirtækið kölluðu þau Sólborg og er okkur heimamönnum á Fáskrúðsfirði að góðu kunnugt.  Í maí 1979 réð Ólafur sig svo á Ljósfellið, fyrst sem 2. stýrimaður, þá 1.stýrimaður og að lokum skipstjóri síðan 1995.  Árin á sjó eru því orðin 47!  „Ég er búinn að starfa með mörgum góðum mönnum þessi ár“ segir Ólafur „en auðvitað misgóðum,  á árunum í kringum hrun var oft erfitt að manna skipið og þá komu menn sem stoppuðu stutt og áttu ef til vill betur heima í öðrum störfum“. „Og svo hef ég líka verið svo heppinn að vera með sömu mönnunum á sjó nánast alla tíð“  bætir hann við.  Aðspurður að því hvað hafi árif á það hvernig gangi að fá mannskap á sjó svaraði Ólafur að það skipa stóran sess hvað menn fái greitt fyrir vinnu sína. „Gengi íslensku krónunar er áhrifaþáttur því á genginu byggist verðið sem fæst fyrir aflann, og til þess að menn séu tilbúinir til þess að stunda sjómennsku þurfa menn að fá betur greitt heldur en ef menn vinna í landi“  svaraði skipstjórinn.

Hefur þú einhvern tímann orðið hræddur til sjós Ólafur?, spurði undirrituð, „já, einu sinni, það var á námsárum mínum að ég þurfti að komast til Reykjavíkur með nokkur húsgögn til að búa við. Ég vissi að Egill Guðlaugsson ætlaði að flytja bátinn Sleipni til Eyrabakka því þangað var hann búinn að selja hann.  Ég fékk að fljóta með ásamt mublunum“.  Úr höfn lagði Sleipnir með þrjá menn innanborðs, Egil, mann að nafni Einar Bragi og Ólaf. En sjómönnunum láðist að taka veðrið.  Á leiðinni lentu þeir í fellibylnum Ellen sem fór mikinn við stendur Íslands og þannig fór að varðskip kom þeim til hjálpar og fylgdi þeim alla leið í höfn í Vestmannaeyjum,  „þar var lægðarmiðjan og brakandi blíða“ rifjaði  Ólafur upp.  „En svona lífsreynsla situr í manni, ég var bara tvítugur að aldri“. Sem betur fer sluppu mennirnir með skrekkinn en húsgögnin hlutu varanlegan skaða.  „En ég hef aldrei orðið smeykur eða óöruggur á Ljósafellinu, það er mjög gott og traust skip. Maður verður líka að umgangast sjóinn af virðingu,  bera virðingu fyrir afli og orku hafsins“

Ólafur er giftur Jónu Björgu Jónsdóttur og eiga þau þrjú börn.  Hann er búinn að koma sér og sínum vel fyrir í fallegu húsi í efri byggðum Búðaþorps og unir glaður við sitt.  „ Þetta er fjölskylduhús“ segir hann, „enda hefur fjölskyldan farið stækkandi með öllum barnabörnunum mínum“ bætir hann við stoltur.  Fjarvera frá heimili og fjölskyldu er eitthvað sem allir sjómenn kannast við og vegna hennar hafa þeir sem hafa lífsviðurværi sitt af sjósókn oft misst af dýrmætum áföngum í lífi fjölskyldunnar.  Ólafur skipstjóri fer ekki varhluta af því, „þegar elsta barnið mitt fæddist 1973 var ég út á sjó og fékk bara skeyti í gegn um Radíóið sem á stóð: það er fædd stúlka“. „Það sama var uppá teningnum þegar hin tvö komu í heiminn, ég var út á sjó.  En það er nú eitt af því sem hefur breyst til batnaðar, nú eru feður meiri þátttakendur og nánast undantekningalaust viðstaddir fæðingar barna sinna, það er gott“

Á Sjómannadaginn fór Ljósafellið í siglingu með gesti og gangandi líkt og önnur skip Loðnuvinnslunnar og lék mér forvitni á vita hvernig það væri að hafa svona margt fólk um borð, allt frá ungabörnum til eldri borgara. „Það er mjög gaman“ svaraði Ólafur, „þetta er góð hefð sem hefur skapast að fólki sé boðið til sjós á Sjómannadegi en auðvitað er það svolítið stressandi líka. Maður treystir á að foreldrar og forráðamenn passi börnin því auðvitað fylgir mesta áhættan blessuðum börnunum.  Mörg börn eru sem betur fer komin í björgunarvesti og fólk er meðvitað um hætturnar sem eru fyrir hendi.  Það hefur svo margt breyst til batnaðar með tilkomu Slysavarnarskóla Sjómanna, við á Ljósafellinu vorum með léttabát á vaktinni og Björgunarsveitin með sinn bát og allt fór vel eins og áður.  En ég neita því ekki að alltaf anda ég léttar þegar ég sest inní bílinn minn að lokinni siglingunni“ sagði Ólafur .

Ólafur skipstjóri er farinn að huga að starfslokum. „Ég veit ekki nákvæmlega hvenær ég læt af störfum, en það verður áður en langt um líður“ sagði hann brosandi og að baki hans mátti sjá eiginkonuna brosa góðlátlega enda hefur hún heyrt þetta áður. „En ég er nú orðið miklu minna á sjó heldur en áður, ég tek mér frí í miklu ríkara mæli heldur en áður fyrr“.  Aðspurður að því  hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur þegar hann lætur af störfum svaraði hann:“´það verður ekki vandamál, ég á helling af barnabörnum sem ég hef ánægju af því að fylgjast með og vera í kring um, svo þarf að halda húsinu við og slá garðinn. Svo á Jóna mín hlut í lítilli trillu sem ég get kannski farið á og náð mér í soðið“ sagði Ólafur Gunnarsson skipstjóri og bauð uppá nýlagað kaffi og rúsínur.

BÓA