Dagna 21. til 30. maí s.l. fór hópur starfsmanna Loðnuvinnslunnar, ásamt mökum,  til Portoroz í Slóveníu.  Flogið var frá Egilsstöðum og lent í Trieste á Ítalíu þaðan sem ekið var í u.þ.b. eina klukkustund til fallega strandbæjarins Portoroz.  Ferðalangarnir töldu 76, menn og konur á öllum aldri.  Dagana sem dvalið var skein sólin glatt á Íslendingana, sem flestir komu fölir undan vetri, og veðrið var með afbrigðum gott alla dagana.

Guðrún Níelsdóttir var ein þeirra sem fór til Portoroz og aðspurð sagði hún að frá hennar bæjardyrum séð,  hefði það staðið uppúr hvað allir voru glaðir. „Samferðafólkið lék á alls oddi, brosti og var svo glatt, það var alls staðar gleði“. Þá fannst henni afar fallegt á Portoroz, allt var svo hreint og fínt. „Maður sá aldrei rusl og drasl“ sagði Guðrún og bætti réttilega við að glöggt væri gests augað og því tækju menn eftir slíku á ferðum sínum.  Þá bætti hún við að það væri svo gaman að ferðast með fólki sem maður þekkir og þegar heim er komið tekur við spjall og endurminningar frá ferðinni sem færir fólk nær hvert öðru.  Þegar fólk deilir lífsreynslu og upplifunum verður samvinnan oft betri.

„Mér fannst líka frábært að Loðnuvinnslan skyldi bjóða öllum í mat, að ógleymdum styrknum sem starfsmannafélagið fékk til fararinnar“ sagði Guðrún,  en á aðalfundi LVF í apríl s.l. styrkti Loðnuvinnslan starfsmannafélagið um fimm milljónir króna.

Portoroz er afar rólegur staður og ekki mikið um næturlíf en Guðrúnu fannst það ekki koma að sök í sínu tilfelli, hún saknaði þess ekki en hún hefði vel unnt unga fólkinu þess. „það hefði ekki truflað mig þótt heyrst hefði í fólki skemmta sér að næturlagi“ sagði þessi lífsglaða kona.

Ingólfur Sveinsson var einnig með í förinni og aðspurður sagði hann að ferðin hefði verið mjög góð. „Það var mjög gaman og veðrið var geggjað“ sagði hann.  Ingólfur hafði orð á því að fallegt hefði verið í Portoroz og voða rólegt, „engin æsingur“ bætti hann við. Hann hefði þó viljað hafa meiri afþreyingu eins og Go-kart nær dvalarstaðnum en raun reyndist.  „En í staðinn slakaði maður bara á í góðra vina hópi og naut lífsins“ sagði Ingólfur með bros á vör. „Ég fór líka til Feneyja og Króatíu og það var mjög gaman“.

Almennt voru ferðalangarnir á vegum Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar afar ánægðir með ferðina, hótelið var fallegt og fínt, maturinn með ágætum og öll aðstaða hin besta.  En mestu máli skiptir auðvitað að allir koma glaðir heim með fangið fullt af skemmtilegum minningum sem það deilir með samstarfsfólki og vinum.

BÓA