Tryggvi Sigmundsson er elsti starfsmaður Loðnuvinnslunnar.  Hann er fæddur19. desember 1945 á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði.  Hann er í það minnsta með pappíra uppá það, eins og hann segir sjálfur frá.  Tryggvi ólst upp á Gestsstöðum og langaði að verða bóndi þegar hann var barn en ekki varð sá draumur að veruleika frekar en flestir draumar barna um framtíðarstörf.  Fimmtán ára gamall fór Tryggvi að vinna hjá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga, kom þá á reiðhjóli frá Gestsstöðum. „Ég man svo vel eftir því þegar ég varð sextán ára gamall, því þá hækkaði kaupið“ sagði Tryggvi sposkur.

Í kring um 1996 kaupir Tryggvi húsið Heiði í Búðaþorpi og hefur störf hjá Loðnuvinnslunni og vinnur þar enn. Þegar undirrituð spurði Tryggva hvort að hann væri með bíladellu, kvað hann svo ekki vera.  Hann segist vera búinn að eiga u.þ.b. tíu bíla í gegn um tíðina og alltaf leiðst að þurfa selja þá frá sér.  „Fyrsti bíllinn var Rússajeppi sem ég keypti af pabba um 1962“ segir Tryggvi og rifjar upp hann hafi oft keyrt hratt og glannalega á sínum yngri árum.  „Ég þótti heldur aðsópsmikill á bíl í þorpinu á þeim tíma, en það hefur enginn minnst á það lengi, ætli þeir séu ekki flestir dánir sem muna eftir því“.  „En málið er að fyrst þegar ég fékk bílpróf ók ég mjög gætilega, svo fór ég að aka eins og apaköttur en er svo löngu farinn að aka eins og maður“.  Þegar rætt er um bíla við Tryggva verður ekki hjá því komist að minnast á það að hann eigi fjóra bíla fyrir utan húsið sitt og þar af einn vörubíl.  Aðspurður sagði Tryggvi að hann ætti efitt með að selja það sem hann eignaðist, vill helst halda í það sem hann á.  Hann segist líka kunna betur að meta gamla hluti, „stundum kaupi ég nýja hluti og tek þá ekki einu sinni upp úr kassanum og ef ég hef ákveðið að taka til og henda einhverju dóti verð ég bara lasinn“ segir Tryggvi brosandi.

Við töluðum svolítið um liðinn tíma eins og gjarnan vill verða í spjalli.  Þá sagði Tryggvi að hann hefði oftast  „dottið í það“  á jólum og páskum en hann væri nánast alveg hættur því.  Hann væri t.d. búinn að eiga tvær flöskur í ellefu ár.  Þá sagði hann að honum hefði verið ráðlagt það að fá sér eitt staup af koníaki fyrir svefninn, svona til heilsubótar en hann hefði nú ekki fundið mikinn mun. „Enda trúi ég ekki á brennivín í lækningaskini“ sagði hann og klóraði sér spekingslega í kollinum.

Þar sem þessi heiðursmaður býr einn á Heiði lá beinast við að spyrja hann hvort að hann yrði stundum einmanna.  „Nei, ég fer þá bara í bílinn og keyri aðeins um og stundum koma karlar í heimsókn og þá renni ég á kaffi“.  Hann sagðist líka vera mikill kaffi karl,  „ég vil hafa það sterkt og gott, ég verð veikur af daufu kaffi“.

Tryggvi er á 72 aldurári og mætir í vinnuna á hverjum degi.  Aðspurður hvort að hann væri hraustur svarði hann kankvís, „ég held að ég sé að drepast á hverjum degi, en ég hef það aldrei af“.  Hann bætir því við að hann vilji gjarnan vinna á meðan hann getur því honum sé lagið að snúa sólarhringnum við þegar hann er í fríi.  „Mér líður vel að keyra bláa bílinn (flutningabíll í eigu Loðnuvinnslunnar) ég gleymi því meira að segja stundum að ég eigi hann ekki sjálfur“.   Hann tekur líka fagnandi á móti unga fólkinu sem kemur í vinnu á vertíðum því þau lífga uppá vinnustaðinn.  Og hann kann líka vel við erlenda fólkið sem kemur í vinnu, ýmist tímabundið eða hefur sest að hérna í þorpinu. „Auðvitað er fólk misjafnt hvaðan sem það kemur, enda er ekki farið að klóna fólk“.

Undirrituð skaut einni spurningu að viðmælandanum um leið og hún kvaddi: „ertu skapléttur Tryggvi?“  „Já, ég er skapléttur ef engin urgast í mér að óþörfu“ , svaraði Tryggvi Sigmundsson og brosti breitt því til staðfestingar.

BÓA