Eitt af norsku fjölveiðiskipunum sem kemur reglulega til Fáskrúðsfjarðar er Gerda Marie AS-32 –Av.  Skipstjóri á Gerdu Marie er Sten Magne Melingen.  Er útgerðin í eigu fjölskyldu Sten Magne og eru faðir hans, Lars Johan Melingen og föðurbróðir, Karsten Melingen,  ásamt fleiri fændum  áhafnameðlimir um borð.  Nafn skipsins Gerda Marie er dregið af formæðrum þeirra bræðra Lars Johans og Karstens, og hefur nafnið farið vel á þessu happafleyi.  Heimahöfn þess er í Torangsvåg.

Áhöfnin telur 10 manns og hefur bróðurparturinn verið um borð síðan skipið kom í eigu útgerðarinnar árið 1989. „Ég er nýji maðurinn um borð“, sagði einn brosmildur maður í matsalnum, „ég er bara búinn að vera hér í fimmtán ár“.

Gerda Marie hefur komið til hafnar á Fáskrúðsfirði einum fimmtán sinnum og í þetta sinn með u.þ.b. 320 tonn af loðnu.  Aðspurður svaraði skipstjórinn því til að ástæða þess að þeir kæmu til hafnar hér og lönduðu sínum afla hjá Loðnuvinnslunni væri þríþætt, hingað væri stutt sigling frá miðunum, þeir fengju gott verð fyrir aflann og síðast en ekki síst sú staðreynd að  hér væri afbragðsgóð þjónusta.  Og því til staðfestingar taldi hann upp nokkra hluti sem þeim þætti mikið til koma. „Loðnuvinnslan lánar okkur bíl svo við getum keyrt um og skoðað á meðan við bíðum löndunar eða bíðum af okkur brælu, og þá er okkur ógleymanleg ferðin sem Lvf bauð okkur í á Mývatn í fyrra, hún var alveg frábær“.  Í sama streng tóku aðrir áhafnameðlimir og sögðu frá því í gamni að einn þeirra væri duglegur að styrkja íslenskan ríkissjóð með því að borga hraðasektir. „ Hann gleymir sér í göngunum“ sögðu noðmennirnir með bros á vör.

Þá gefur það óneitnalega lífinu lit í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð að fá hingað báta og skip frá frændum okkar í Noregi og Færeyjum.  Þeir ganga hér um götur og heilsa heimamönnum, þeir versla við þá er selja vörur og þjónustu og vinabönd myndast.  Það var í það minnsta notaleg stemning að sitja í borðsalnum á Gerdu Marie með Sten Magne, föður hans, frændum og öðrum áhafnarmeðlimum, sötra kaffisopa og spjalla við þessa góðu vini Loðnuvinnslunnar og  Fáskrúðsfjarðar.

BÓA

Myndin er af Karsten Melingen og Lars Johan Melingen