Hafrafell Su 85 er krókaaflamarksbátur sem Loðnuvinnslan eignaðist í haust. Og nú þegar hráefnisskortur er á mörkuðum sem og í Frystihúsi LVF var ákveðið að senda Hafrafellið til sjós. Skipstjóri er Guðni Ársælsson og með honum um borð er Sverrir Gestsson. „Það gekk mjög vel, kannski bara of vel“ svaraði Guðni þegar hann var inntur eftir því hvernig fyrsti túrinn hefði gengið. „Í gamla daga höfðu menn þá hjátrú að best væri ef fyrsti túr gengi svolítið brösulega, þá yrði framhaldið betra, en við erum mjög sáttir við gott gengi“. Hafrafellið kom að landi með u.þ.b. 4 ½ tonn úr þessum fyrsta túr sem verður að teljast góður árangur.

En til að koma svona bát á sjó þarf fólk í landi til vinna við línur og króka.  Í bryggjuhúsinu á Tangabryggjunni er búið að koma upp aðstöðu til að stokka upp línur þar sem ekki er slík aðstaða um borð.  Þar vinna tveir menn við uppstokkun þeir Ari Sveinsson og Guðjón Gíslason. „Við stokkum bara upp, við þurfum ekki að beita því það er beitningatrekt um borð í Hafrafellinu“ sagði Ari landformaður, en hér áður fyrr var það starfsheiti þeirra sem báru ábyrgð á línum og beitu. Ari sagði að mikill gestagangur væri búin að vera í skúrinn til þeirra í dag,  „það eru margir sem hafa gaman af því að kíkja við og líta á þessi handbrögð sem eru smátt og smátt að hverfa með aukinni tækni“ sagði Ari um leið og hann splæsti auga á línuenda.

Aflanum sem Hafrafellið kom með var landað á Stöðvarfirði og þaðan var honum ekið í Frystihúsið á Fáskrúðsfirði. „ það spáir brælu í nótt, svo við förum ekki út aftur fyrr en í fyrramálið“ sagði skipstjórnn er hann var spurður að því hvænær ætti að leggja úr höfn í nýjan túr, „ef ekki væri fyrir bræluna myndum við bara stoppa í svona fjóra tíma og fara svo aftur“.  Og í þessu samhengi rifjaði Guðni upp sögu af trillukarli einum sem hafði ungan mann með sér á sjónum. Það var stíft sótt og lítið um hvíld. Þegar ungi maðurinn fór að inna karlinn eftir því hvort að ekki færi að koma frí svaraði karlinn: „hvað er þetta drengur, getur þú ekki vakað eina vorvertíð“.

BÓA