Þrátt fyrir yfirstandandi verkfall sjómanna hefur verið unnið í Frystihúsinu undanfarna tvo daga. Aflinn kom frá krókaaflamarksbátnum Dögg Su 118. Sjómennirnir á Dögginni eru í Landsambandi smábátaeigenda og eru því ekki í verkfalli.  „Að fá þennan afla til vinnslu er mjög mikilvægt fyrir okkur“ segir Þorri Magnússon framleiðslustjóri „sérstaklega það að starfsfólkið fái vinnu, svo þurfum við að bjarga okkar viðskiptavinum um fisk, þ.e. að fylla uppí samninga sem þegar hafa verið gerðir“. Starfsfólk Frystihússins hefur verið atvinnulaust undanfarnar vikur og sagði Þorri að allir hefðu mætt glaðir og kátir til vinnu og að vel hefði verið mætt.

Frystihúsið hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðan í sumar. Keyptar voru svokallaðar vatnsskurðavélar sem taka við af mannshöndinni við að skera fiskinn. Aðspurður svaraði Þorri að vélarnar reyndust vonum framar og t.a.m. skiluðu útlitsfegurri afurð en mannshöndin náði að gera. Með tilkomu þessa véla munu afköst aukast og þar með muni einstaklingsbónus hækka svo að ávinningur er fyrir bæði starfsfólk og fyrirtæki, auk þess munu skapast fjölbreyttari störf á vertíðartímum.

„Nú höldum við bara ótrauð áfram“ sagði Þorri Magnússon framleiðslustjóri, „það mæta allir til vinnu á mánudaginn og vonandi gengur okkur vel að ná okkur í hráefni til vinnslu þangað til verkfall sjómanna leysist og skip Loðnuvinnslunnar halda til hafs á ný“.

BÓA