Þann 19.janúar 1977 kom fyrsti hópurinn af „áströlsku stelpunum“ til Fáskrúðsfjarðar til þess að vinna í fiski og eru því full 40 ár síðan. Í allmörg ár eftir það komu hópar til sömu vinnu og voru ávalt kallaðar „áströlsku stelpurnar“ þó að staðreyndin væri sú að þær komu frá hinum ýmsu löndum. Að þessu tilefni spjallaði undirrituð við Esther Brune sem kom til Fáskrúðsfjarðar 13.janúar 1981. Esther ásamt tveimur vinkonum sínum ákváðu að fara á vit ævintýrana sem þá fólst í því að þær réðu sig til vinnu í fiski einhversstaðar á Íslandi. Fóru þessar ráðningar fram í gegn um umboðsskrifstofu í London og þegar stúlkurnar réðu sig til starfa vissu þær ekki hvar á Íslandi þær myndu hafna. Ráðingin var uppá sex mánuði í senn. „Við vinkonurnar vildum fara til Íslands og vinna í fiski í sex mánuði, safna okkur peningum og fara svo í ferðalag um Evrópu“ sagði Esther þegar hún var spurð hvers vegna hún hefði kosið að koma til Íslands. „Og við gerðum það, keyptum okkur „rúgbrauð“ bifreið og ferðuðumst um Evrópu“ bætti hún við dreymin á svip.
Í hópnum sem kom í janúar árið 1981 voru ungar konur frá Ástralíu, Englandi, vinkonurnar þrjár frá Suður-Afríku en flestar komu fá Nýja Sjálandi. Eftir undirritun samnings í London, þar sem ungu konurnar þurftu líka að fara í læknisskoðun, lá leiðin til Reykjavíkur þar sem gist var hjá Hjálpræðishernum, sú dvöl var einni nótt lengur en áætlað var vegna veðurs. Þaðan var farið með flugi til Egilsstaða þar sem rúta beið þeirra og ekið var til Reyðarfjarðar og gist á hótel Búðareyri, sem þá var og hét. Veðrið var með þeim hættinum að ekki var hægt að komast lengra fyrr en næsta dag og þá loks komu þær til Fáskrúðsfjarðar. Allt var þakið snjó og margar úr hópnum höfðu ekki séð snjó áður og var Esther ein að þeim. „Þetta var allt svo öðruvísi og skrítið, bara það að það voru engin tré þótti okkur mjög skrítið“
Það var ekki mikið um að vera í litlu íslensku sjávarþorpi fyrir hóp af ungum konum svo að þær voru duglegar að gera sér dagamun sjálfar. Elda fínan mat og leggja fallega á borð, svo höfðu þær búningakvöld þar sem þær dunduðu sér við að búa til einhverja búninga á sig úr því sem þær náðu í. Þær voru líka fjótar að kynnast fólki. Auðvitað samstarfsfólki sem tók þeim öllum vel og spjallaði þrátt fyrir að tala ekki sama tungumál að ógleymdu unga fólkinu, sér í lagi ungu mönnunum, sem voru duglegir að heimsækja þær og halda þeim félagskap. Í verbúðina Valhöll var líka ráðinn ungur maður til að „gæta“ þeirra. Umræddur ungi maður og Esther rugluðu saman reitum sínum og gera enn 40 árum síðar.
Aðspurð að því hvort að það hafi verið auðveld ákvörðun að setjast að svona fjarri heimahögum í Suður-Afríku svaraði Esther: „aldeilis ekki, það var mjög erfið ákvörðun. Í heimalandinu var allt sem ég þekkti og þótti vænt um, fjölskylda og vinir en í fjarlæga kalda Íslandi var ástin, þetta var alls ekki auðvelt, en ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun minni“. „En það sem var erfiðast að venjast var veðurfarið, á veturnar var það dumbungurinn og gráminn en á sumrin var það birtan, það kom ekki nótt. Það tók mig um það bil 10 ár að venjast þessu og nú læt ég ekki veðrið á mig fá, ég gleðst yfir fallegri birtu hvort heldur að vetri eða sumri eins og aðrir Íslendingar“ sagði Esther Brune sem hóf sína göngu hér á Fáskrúðsfirði sem „áströlsk stelpa“.
BÓA