Sífelld þróun er í fiskileitartækjum rétt eins og öðrum tækjum. Hoffellið fékk á dögunum nýjan tækjakost, svokallaðan lágtíðnisónar. Tæki þetta heitir Simrad SU 90 og býr yfir þeim eiginleika að það sendir bæði lárétta og lóðrétta geisla sem þýðir að ekki er nauðsynlegt að vera yfir fiskitorfu til að sjá hana því tækið horfir samtímis niður og til hliðar. Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffellinu segir tækið leysa af hólmi eldra tæki sem ekki var nærri eins fullkomið. „Þetta tæki mun nýtast við alla uppsjávarveiði“ sagði Bergur en tók það líka skýrt fram að enn hefur tækið ekki verið prófað við veiðar vegna sjómannaverkfallsins sem nú er yfirstandandi. Bergur sagði svona sónartæki gera skipstjórnendum kleift að leita af fiskitorfum á miklu stærra svæði í einu heldur en áður. Þessi sónar getur leitað í 3000 metra radíus og við bestu hugsanlegu aðstæður allt uppí 8000 metra, en gamla tækið náði aðeins að skanna um 950 til 1200 metra radíus. „Nú hlakka ég bara til að komast til sjós og sjá við raunaðstæður hvernig þetta sónartæki virkar“ sagði skipstjórinn knái Bergur Einarsson að lokum.