Í dag eru liðin 80 ár frá stofnun Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Stofnfundur félagsins var haldinn 6. ágúst 1933 í samkomuhúsinu Álfheimum á Búðum, sem nú heitir Kirkjuhvoll. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu: Þórarinn Grímsson Víkingur bóndi Vattarnesi, formaður, Björn Daníelsson kennari, Búðum og Björgvin Benediktsson útgerðarmaður, Búðum og til vara Höskuldur Stefánsson bóndi í Dölum. Fyrsti kaupfélagsstjóri KFFB var Björn I. Stefánsson. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og dótturfyrirtæki þess hafa um áratugaskeið verið aðal burðarásar í atvinnulífi Fáskrúðsfirðinga og starfsemin byggst að mestu á sjávarútvegi. Aðal eign félagsins í dag er 83% hlutafjár í Loðnuvinnslunni hf sem rekur öfluga sjávarútvegsstarfsemi á Fáskrúðsfirði með um 150 starfsmenn. Félagsmenn KFFB eru um 200.

Stjórn KFFB skipa í dag: Steinn B. Jónasson, formaður, Elvar Óskarsson, varaformaður, Högni P. Harðarson, ritari, Berglind Ó. Agnarsdóttir og Jónína G. Óskarsdóttir. Varamenn: Magnús B. Ásgrímsson, Elsa S. Elísdóttir og Smári Júlíusson. Kaupfélagsstjóri er Gísli J. Jónatansson.



Haldið verður upp á 80 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga laugardaginn 31. ágúst n.k.