Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga var haldinn 19. apríl s.l. Hagnaður KFFB árið 2012 án áhrifa dótturfélagsins Loðnuvinnslunnar hf var kr. 44,7 millj., en hagnaður félagsins skv. samstæðureikningi félaganna var kr. 425,7 millj. Eigið fé KFFB skv. samstæðureikningi er kr. 2,3 milljarðar, sem er 97% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Á fundinum voru afhent tvö gjafabréf. Annað var vegna 25 m2 sólstofu sem KFFB gefur Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum, en skv. hinu bréfinu gefur KFFB sjónvarpsskjá og hljóðkerfi til Æskulýðsheimilisins Hellirinn. Ósk Bragadóttir tók við gjafabréfinu f.h. Uppsala, en Björgvin Stefán Pétursson og Hilmar Freyr Bjartþórsson tóku við bréfinu f.h. Hellisins. Á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir, önnur varðandi umhverfismál, en hin um útbætur í heilbrigðismálum. Þá samþykkti fundurinn að leggja kr. 5.670.000 í stofnsjóð félagsmanna.

KFFB sem verður 80 ára 6. ágúst 2013 er í dag eignarhaldsfélag, en aðal eign þess er 83% hlutafjár í Loðnuvinnslunni hf. Félagsmenn KFFB eru um 200. Í stjórn KFFB eru: Steinn B. Jónasson, Elvar Óskarsson, Högni P. Harðarson, Jónína G. Óskarsdóttir og Berglind Agnarsdóttir. Varamenn: Magnús B. Ásgrímsson, Elsa S. Elísdóttir og Smári Júlíusson. Gísli J. Jónatansson sem verið hefur kaupfélagsstjóri KFFB s.l. 38 ár lætur af störfum í haust og við tekur Friðrik Mar Guðmundsson.

Mynd frá afhendingu gjafabréfa: F.v. Elvar Óskarsson, Jónína G. Óskarsdóttir, Elinóra K. Guðjónsdóttir, Gísli J. Jónatansson, Hilmar F. Bjartþórsson, Björgvin S. Pétursson. Ósk Bragadóttir, Steinn B. Jónasson og Högni P. Harðarson.