Að undanförnu hafa starfsmenn fiskimjölsverksmiðju og vélaverkstæðis, auk annarra iðnaðarmanna, unnið að umfangsmiklum breytingum á fiskimjölsverksmiðju LVF. Verið er að bæta við þeim möguleika að framleiða gufu með rafskautskatli í stað olíukatla. Auk þess hefur verið unnið að því að minnka útblásturs- og lyktarmengun frá verksmiðjunni. Meðal annars hefur verið smíðaður nýr skorsteinn sem mun verða um 50 m á hæð og er þetta trúlega stærsta stykki sem smíðað hefur verið af starfsmönnum á vélaverkstæði LVF. Á myndinni má sjá hvar verið er að hífa þriðju eininguna í nýja skorsteininn. Ennþá á 14 m eining eftir að bætast við og verður þá skorsteinninn kominn í 50 m hæð. Umsjón með þessum framkvæmdum hefur Páll Sigurðsson, verkfræðingur. Páll hafði einnig yfirumsjón með uppsetningu á vélbúnaði verksmiðjunnar þegar hún var byggð árið 1995.