Hinn 26. júní s.l. var undirritaður samningur á milli Loðnuvinnslunnar hf og RARIK um dreifingu og flutning ótryggðrar orku vegna fiskimjölsverksmiðju notanda á Fáskrúðsfirði. Uppsett afl búnaðar sem nýtir ótryggt rafmagn er 15 MW og áætluð ársnotkun 20GWH. Stefnt er að fullri afhendingu 1. september 2013. Í fyrri áfanga, sem áformað er að ljúka 10. janúar 2013, verður afhending allt að 5 MW. Í samningi þessum er fjallað um tengingu búnaðar sem nýtir ótryggða orku við dreifikerfi RARIK og uppsetningu og rekstur á tengi- og mælibúnaði. Heimtaug frá aðveitustöð að verksmiðju er 4,1 km. og verður hún grafin í jörð ofan við kauptúnið. Þessi framkvæmd kemur til með að nýtast að hluta til fyrir nýja vatnsveitu á Fáskrúðsfirði, en Fjarðabyggð fær afnot af skurðinum fyrir nýja vatnslögn og verður skurðurinn hafður 20 cm. breiðari af þeim sökum.