Eftir Gísla J. Jónatansson



Eitt umdeildasta mál innan LÍÚ á síðustu árum hefur verið hvernig staðið var að úthutun norsk-íslensku síldarinnar og í framhaldi af því hvernig ákveðnir hagmunaaðilar innan samtakanna ætluðu að úthluta sjálfum sér kvóta í makríl eða að minnsta kosti að hafa veruleg áhrif á niðurstöðuna.

Upphaf þessa máls má rekja til ársins 2002 þegar norsk-íslenska síldin var sett í kvóta. Lög um fiskveiðar utan lögsögu (151/1996) tóku á því hvernig skyldi staðið að úthlutun norsk-íslensku síldarinnar. Þar segir m.a. í 5. gr.: “Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.” Þegar síldinni hafði verið úthlutað og menn fóru að skoða stöðu sína kom í ljós að lögunum hafði verið breytt án nokkurs samráðs eða kynningar af hálfu stjórnenda LÍÚ eða af hálfu stjórnvalda. En hvernig og hvers vegna var lögunum breytt? Inn í lögin hafði m.a. verið sett svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða: “Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli aflareynslu þeirra á árunum 1994-2001 að báðum árum meðtöldum”. Undirritaður fór á fund sjávarútvegsráðherra á þeim tíma, þar sem honum fannst m.a. hlutur Fáskrúðsfirðinga nokkuð rýr. Það var ljóst að lögunum hafði verið breytt þannig að nú skyldi úthlutunin miðast við átta ár í stað þriggja bestu. Þessi breyting hafði það í för með sér að hlutur þeirra sem höfðu svokallaða meiri veiðireynslu var aukinn, en hlutur hinna sem höfðu svokallaða minni reynslu var nánast þurrkaður út. “Þeir vildu hafa þetta svona hjá LÍÚ og ég get ekkert frekar gert í málinu” upplýsti ráðherrann. En hverjir þessir “þeir hjá LÍÚ” voru hefur aldrei verið upplýst eða á hvern hátt var staðið að þessu máli af hálfu samtaka útgerðarmanna þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Þar var sagt að umsögn LÍÚ um þessa lagabreytingu finnist ekki og trúlega hafi þetta verið einstaka útgerðarmenn sem komu þessu til leiðar. Smátt og smátt var svo aflahlutdeild flestra þeirra sem minnst fengu keypt eða gleypt af þeim sem mestri hlutdeild var úthlutað til skv. nýja bráðabirgðaákvæðinu. Afleiðingarnar af þessum ótrúlega gjörningi sjást best þegar litið er á skiptingu norsk-íslensku síldarinnar í dag, en hafa skal einnig í huga að nokkur fyrirtæki eiga stóra hluti hvort í öðru, svo að samþjöppunin er í raun enn meiri.

Árið 2001 stunduðu 64 skip veiðar á norsk-íslenskri síld, en árið 2012 eru þau 18 í eigu 11 fyrirtækja, sem eru eftirfarandi:



1) Ísfélag Vestmannaeyja hf 20,15% (3 skip)

2) Síldarvinnslan hf 19,02% (2 skip)

3) HB-Grandi hf 14,10% (3 skip)

4) Samherji hf 10,42% (1 skip)

5) Skinney-Þinganes hf 8,97% (2 skip)

6) Eskja hf 8,57% (2 skip)

7) Vinnslustöðin hf 6,82% (3 skip)

8) Huginn hf 4,65% (1 skip)

9) Gjögur hf 4,49% (1 skip)

10) Runólfur Hallfreðsson hf 2,35% (1 skip)

11) Loðnuvinnslan hf 0,45% (1 skip)



Líður nú fram til ársins 2009, en þá hafa Íslendingar nýlega hafið makrílveiðar. Þá er boðað til fundar af hálfu LÍÚ um skiptingu makrílsins milli skipa og sagt að það sé gert í þágu þjóðarhagsmuna. Þetta var gert þegar ljóst var að sjávarútvegsráðherra myndi ekki úthluta á skip það árið vegna mjög lítillar veiðireynslu Íslendinga þegar þarna var komið sögu. En hvernig átti að skipta? Sumir vildu einfaldlega nota sömu skiptingu og nú er í norsk-íslensku síldinni, þar sem þessar tegundir veiddust oft saman. Aðrir vildu að sú litla reynsla sem komin var yrði notuð, en að auki skyldi tekið tillit til ýmissa annarra hluta s.s. allra frátafa frá veiðum, svo nokkuð sé nefnt. Hugmyndir manna gengu einfaldlega út á það að þeir sem minnstu reynsluna höfðu í makríl áttu að binda skip sín. Það átti að endurtaka óréttlætið frá 2002 þegar norsk-íslensku síldinni var úthlutað. Þetta gátu m.a. fulltrúar Fáskrúðsfirðinga ekki með nokkru móti fallist á og minntu menn á það hverju “ónafngreindir” höfðu komið til leiðar við úthlutun norsk-íslensku síldarinnar. Töldu þeir að sá tími væri liðinn að einhverjir hefðu allt en aðrir ekki neitt. Bentu þeir m.a. á að þetta væri aðeins spurning um stjórnun skipanna, hvað færi til manneldisvinnslu af makríl og hvenær menn tækju síldina. Skip þeirra flestra hefðu næg verkefni, en þeir sem litla hlutdeild hefðu í síldinni gætu nú rétt hlut sinn í makrílnum. Það þyrfti einfaldlega enga skiptingu frá LÍÚ á þessum tímapunkti í trássi við sjávarútvegsráðherra. Nú fóru menn heldur að ókyrrast og voru fulltrúar Fáskrúðsfirðinga margsinnis spurðir að því hvort að þeir ætluðu að vera úti eða inni. Einn forstjórinn bað þá um að mega tala sérstaklega við þessa menn frammi á gangi og þar átti að stinga upp í þá ákveðinni dúsu, svo að þeir samþykktu hið nýja “réttlæti”, en ekki dugði það. Til þess að sannprófa hvort menn væru virkilega að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar í þessu sambandi komu Fáskrúðsfirðingar með sáttatillögu. Hún fólst í því að útgerðarmenn kæmu sér saman um að skipta makrílnum jafnt á skip þetta árið og í framhaldinu myndu menn reyna að leiðrétta aðstöðumuninn í norsk-íslensku síldinni. Einhverjir tóku undir þessa tillögu, en flestir voru henni mótfallnir. Það kom þá í ljós að menn voru ekkert að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, heldur sína eigin. Í framhaldi af þessari niðurstöðu drógu Fáskrúðsfirðingar og Eskfirðingar sig út úr þessum viðræðum. Þar með var samstaðan rofin og ekkert varð frekar úr þessu ráðabruggi. Það er svo rétt að benda á það alveg sérstaklega, að í upphafi höfðu þær útgerðir sem sterkasta stöðu höfðu í norsk-íslensku síldinni, möguleika langt umfram aðra til þess að afla sér veiðireynslu í makríl.

Reynt hefur verið að ná samstöðu um það innan útvegsins að leiðrétta að einhverju leyti þessi dæmalausu vinnubrögð en ekki tekist. Þar hafa lagt sig fram Adolf Guðmundsson og Gunnþór Ingvason.

Nú þegar nýtt kvótafrumvarp er til meðferðar þar sem stefnt er að því að fiskurinn í sjónum verði sameiginleg og ævarandi sameign íslensku þjóðarinnar er nauðsynlegt að fara rækilega yfir þetta mál og finna lausn á því til frambúðar. Ég tel ekki óeðlilegt úr því sem komið er að norsk-íslensku síldinni verði einfaldlega skipt jafnt á skip. Ég tel jafnframt nauðsynlegt vegna fyrirhugaðra nýtingarsamninga að huga að öðrum tegundum í uppsjávarfiski og kanna hvort ekki sé ástæða til að jafna þar aðstöðumun á milli útgerða. Ég bendi á í þessu sambandi að búið er að dreifa bolfiskinum út og suður í gegnum árin en aldrei hefur verið hreyft við kvóta í uppsjávarfiski.

Ég skora á hæstvirt stjórnvöld og alla góða þingmenn að taka þessi mál til endurskoðunar og vinna að sanngjarnri lausn samfara nýju kvótafrumvarpi. Við getum ekki látið þessa hluti vera afskiptalausa. Munum eftir hugtökunum jafnræði, sanngirni og réttlæti.