Loðnuvertíðin stendur nú sem hæst. Í nótt var verið að landa úr Hoffelli þriðja farminum og með því eru komin á land um 7000 tonn á Fáskrúðsfirði. Auk afla Hoffells hafa færeysku skipin Finnur Fríði og Júpiter landað hér einu sinni. Hrognavinnslan er nú komin vel í gang og fiskimjölverksmiðjan gengur hér allan sólarhringinn. Fyrsta loðnan barst til Fáskrúðsfjarðar 11. febrúar, en Hoffell hafði verið á gulldeplu og aflað um 4500 frá því í desember s.l. Loðnuvertíðin fór því seinna af stað á Fáskrúðsfirði en annarsstaðar, en nú er hún komin í fullan gang og skapar mikla atvinnu fyrir Fáskrúðsfirðinga og aðra þá sem hingað eru komnir til starfa.