Hinn 23. október s.l. var haldið upp á 70 ára afmæli Ungmennafélagsins Leiknis á Fáskrúðsfirði. Afmælishátíðin fór fram í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. Í upphafi hátíðarinnar rakti Magnús Stefánsson fyrrv. kennari sögu Umf. Leiknis fram á þennan dag. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Elín Rán Björnsdóttir, formaður ÚÍA, ávörpuðu samkomuna og afhentu blóm í tilefni afmælisins. Þá færði Gísli Jónatansson, framkvæmdastjóri LVF og KFFB, Ungmennafélaginu peningafjöf frá félögunum að fjárhæð kr. 700.000. Jakob Skúlason, stjórnarmaður í KSÍ, sæmdi Stein Björgvin Jónasson, formann Umf. Leiknis, og Steinunni Björgu Elísdóttur, silfurmerki KSÍ, fyrir störf þeirra í þágu knattspyrnuíþróttarinnar. Í lok samkomunnar sæmdi formaður Umf. Leiknis Gísla Jónatansson gullmerki Leiknis fyrir dyggan stuðning hans og fyrirtækjanna sem hann stýrir við Umf. Leikni.