Mikið hefur verið að gera hjá Loðnuvinnslunni undanfarnar vikur eftir að veiðar á makríl hófust. Hoffell er búið að landa um 2.000 tonnum af makríl og hafa um 80% aflans farið í manneldisvinnslu. Makríllinn er hausaður og slógdreginn og siðan frystur. Búið er að framleiða tæplega 1.100 tonn af frystum makrílafurðum í frystihúsinu Fram. Jafnframt hefur bolfiskur verið unninn í frystihúsinu á Fiskeyri eins og aðstæður hafa leyft. Mikið hefur verið um að skólafólk hafi komið til starfa hjá LVF í sumar og hafa veiðar og vinnsla gengið með ágætum það sem af er.