Aðalfundur Loðnuvinnslunnar hf var haldinn 17. apríl 2009. Heildartekjur félagsins á árinu 2008 voru kr. 3,9 milljarðar og hækkuðu um 44% miðað við fyrra ár. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var kr. 1,1 milljarður. Hagnaður fyrir gengisbreytingu erlendra lána var kr. 387 millj., en tap eftir reiknaða gengisbreytingu erlendra lána og skatta var kr. 620 millj. Veltufé frá rekstri var kr. 540 milljónir sem er 14% af tekjum og eigið fé félagsins var kr. 996 millj. sem er 27% af niðurstöðu efnahagsreiknings samanborið við 46% árið 2007. Á launaskrá Loðnuvinnslunnar árið 2008 komu 272 starfsmenn en að meðaltali störfuðu 158 manns hjá félaginu. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga er aðaleigandi Loðnuvinnslunnar hf með um 83% eignarhlut.

Í umræðum um sjávarútvegsmál lýstu fundarmenn miklum áhyggjum af hugmyndum stjórnarflokkanna um innköllun veiðiheimilda og að allur fiskur skuli seldur á fiskmarkaði. Verði innkölluð 5% á ári fara um 160 tonn af bolfiski frá Loðnuvinnslunni ár hvert og eftir 6 ár verður búið að innkalla 1000 tonn af bolfiski frá Fáskrúðsfirði. Verði útgerðin skylduð til að selja allan afla í gegnum fiskmarkaði er rekstri fiskvinnslufyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landsins komið í algjört uppnám og starfsöryggi fiskvinnslufólks verulega ógnað.

Á aðalfundinum afhenti Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar Leiknis Gísla Jónatanssyni f.h. Loðnuvinnslunnar þakkarskjöld fyrir frábæran stuðning við Ungmennafélagið Leikni.

Stjórn Loðnuvinnslunnar var öll endurkjörin en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson.