Nú nálgast verklok óðum og hefur Alkor shipyard verið krafið um að standa við afhendingu á skipinu í dagslok föstudaginn 1. febrúar. Það má þó ekki mikið óvænt koma uppá í prófunum til að raska því. Í þessari viku voru framkvæmd álagspróf á nýja rafalnum og töflu og gekk það að óskum. Togvindur og nýju hjálparspilin látin snúast og leit það vel út. Spilin verða prófuð undir álagi með veiðarfærum á Íslandi. Skrúfugír, öxull og skrúfa látin snúast. Uppfærslugír og gamli rafall prófaðir eftir upptekt og komu minniháttar bilanir í ljós. Klæðningarvinnu á millidekki að mestu lokið,og gengið frá lýsingu þar og víðar. Gólfefni komin á borðsal og setustofu og er unnið að dúklagningu á göngum. Byrjað að koma fyrir húsgögnum í borðsal, skápum, hitaborði og fleiru. Einnig byrjað á þrifum í klefum, og áhöfn byrjuð að flytja varahluti og öryggisbúnað um borð sem var fjarlægður vegna sandblásturs og málningar. Skipið er nú búið að fá sitt rétta einkenni á skorsteinshúsið eins og má sjá á meðfylgjandi mynd.