Loðnuvinnslan hf hefur samið við skipasmíðastöðina Alkor Shiprepair Yard í Gdansk í Póllandi um endurbætur á Ljósafelli SU 70. Skipið verður sandblásið utan sem innan, endurnýjaðar röra- og raflagnir og skipt um ýmsan annan búnað í vistarverum skipsins. Þá verður m.a. skipt um togvindur og búnað á millidekki.
Ljósafell var smíðað í Japan á árunum 1972-1973 fyrir Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar hf og kom til Fáskrúðsfjarðar 31. maí 1973. Á árunum 1988-1989 var skipt um aðalvél í skipinu og það lengt og endurnýjað að miklu leyti í Póllandi.
Ljósafell hefur alla tíð verið mikið happafley og koma þess til Fáskrúðsfjarðar fyrir 34 árum olli straumhvörfum í atvinnumálum byggðarlagsins.
Ljósafell heldur af stað til Póllands í síðustu viku ágúst n.k og er áætlað að verkið taki 95 daga.