Nú er svo komið að Loðnuvinnslan h/f á Fáskrúðsfirði er eina fyrirtækið hér á landi sem enn framleiðir saltsíld, en á síðastliðnu ári var saltað í 25000 tunnur hjá fyrirrækinu, 20000 tunnur af flökum og bitum og 5000 tunnur af heilli og hausskorinni síld. Heila síldin var eftirflökuð nokkrum mánuðum seinna og seld sem flök.

Í maí og júní s.l. bárust til Fáskrúðsfjarðar um 2200 tonn af norsk-íslenskri síld, sem öll var unnin til manneldis. Saltað var í 7300 tunnur af flökum og bitum og fryst voru um 90 tonn af flökum. Þessar síldarafurðir eru allar seldar og afskipanir þegar hafnar.

Í dag er flutningaskipið Haukur að losa hér um 11000 tómar tunnur, sem saltað verður í með haustinu. Tunnuskip er því heldur sjaldgæf sjón nú til dags hér á landi nema einstöku sinnum á Fáskrúðsfirði.