Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði árið 2005 nam kr. 44 millj. eftir skatta, en var kr. 80 millj. árið 2004.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.263 millj. og hækkuðu um 1,4% miðað við árið á undan. Rekstrargjöld voru kr. 2.017 millj. og hagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar kr. 246 millj. eða 10,9% af tekjum og hækkaði um kr. 29 millj. frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri nam kr. 180 millj. eða 8% af tekjum og er það sama fjárhæð og hlutfall og árið 2004. Afskriftir voru kr. 193 millj. og hækkuðu um 1,3% frá fyrra ári.
Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.642 millj. sem er 50,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Arðsemi eiginfjár var 2,7%, en var 5,1% árið áður.
Nettó skuldir voru kr. 1130 millj. og hækkuðu um kr. 86 millj. frá árinu 2004.
Loðnuvinnslan fjárfesti fyrir kr. 392 millj. á árinu 2005 og þar af voru varanlegar aflaheimildir kr. 285 millj.
Á launaskrá komu 357 manns á síðasta ári, en að jafnaði unnu um 160 starfsmenn hjá félaginu.
Hluthafar voru í árslok 219. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með liðlega 82% eignarhlut.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 31. mars s.l. og samþykkti fundurinn að greiða 5% arð til hluthafa eða kr. 35 millj.