Síðastliðin tvö sumur hefur verið unnið að miklum endurbótum utan húss á Valhöll á Fáskrúðsfirði og er húsið í dag orðið hið glæsilegasta og vekur eftirtekt. Þeir sem unnu að þessum breytingum eru bræðurnir Hallur, Baldur og Gunnar Guðlaugssynir ásamt Baldri Rafnssyni á Vattarnesi og Herbert Hallssyni.
Valhöll er í eigu Loðnuvinnslunnar h/f og hefur húsið verið notað sem verbúð mörg síðustu ár, aðallega fyrir erlenda starfsmenn LVF.
Hús þetta á nokkuð merkilega sögu, því það var upphaflega reist í Mjóafirði árið 1897 og rifið árið 1918. Húsið var reist af Konráði Hjálmarssyni, kaup- og útgerðarmanni. Í húsinu var íbúð hans, verslun og skrifstofur og var húsið sannkölluð glæsivilla þess tíma. Þegar Konráð hættir starfsemi í Mjóafirði kaupir húsið Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður í Króki á Fáskrúðsfirði, rífur það niður og flytur viðinn til Fáskrúðsfjarðar. Húsið er byggt á Fáskrúðsfirði nokkuð breytt frá því sem upphaflega var. Árið 1942 kaupir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga húsið og setur þar á fót saumastofu. Valhöll hefur gegnt hinum margvíslegustu hlutverkum á Fáskrúðsfirði. Það var m.a fyrsta fjölbýlishúsið á staðnum, en kunnast mun það vera sem Hótel Valhöll, en þar var rekin gisting og mötuneyti af kaupfélaginu í áratugi. Í húsinu eru 13 svefnherbergi með 25 rúmum, eldhús og matsalur. Auk saumastofunnar, var í húsinu m.a. póstur og sími, bakarí, raftækjaverslun, bókabúð og verkfræðistofa.
Það skemmtilega gæti átt sér stað eftir sameiningarkosningarnar 8. október n.k. að Valhöll yrði á ný í sveitarfélagi með Mjófirðingum eins og upphaflega
Ljósm. Eiríkur Ólafsson