Í kvöld fer fram hið árlega hjónaball Fáskrúðsfirðinga, en talið er að slíkar samkomur hafi verið haldnar á Fáskrúðsfirði nær óslitið frá árinu 1896. Hjónaballsnefndin, sem í eru 12 manns, hefur starfað frá því í nóvember 2004 að undirbúningi, en formaður nefndarinnar að þessu sinni er Lars Guðmundur Hallsteinsson. Á meðan á borðhaldi stendur verður boðið upp á vönduð heimatilbúin skemmtiatriði, þar sem farið er á léttu nótunum yfir það helsta sem átt hefur sér stað á liðnu ári. Fastir liðir á skemmtidagskránni eru m.a. annáll síðasta árs, hjónaballsnefndarvísur og fjöldasöngur. Maturinn er frá Hótel Bjargi á Fáskrúðsfirði með kokkinn Sverri Ágústsson í fararbroddi. Að loknu borðhaldi leikur hljómsveitin Von frá Sauðárkróki fyrir dansi. Í hjónaballsnefndinni eru að þessu sinni auk Lars formanns, Jóhanna Kristín Hauksdóttir, Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Guðfinna Erlín Stefánsdóttir, Dagný Hrund Örnólfsdóttir, Anders Kjartansson, Bergur Einarsson, Björgvin Már Hansson, Níels Pétur Sigurðsson og Jóhannes Guðmar Vignisson.

Góða skemmtun.