Tap varð af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 9 mánuði ársins 2004 að fjárhæð kr. 52 millj. eftir skatta samanborið við kr. 74 millj. hagnað á sama tímabili 2003.

Rekstrartekjur félagsins voru kr. 1.702 millj. og drógust saman um kr. 324 millj. eða um 16% miðað við árið á undan, en rekstrargjöld lækkuðu um 7%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 127 millj. samanborið við kr. 331 millj. árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 83 millj. en var kr. 277 millj. á 9 mánuðunum 2003. Afskriftir voru kr. 164 millj. og höfðu lækkað um kr. 44 millj. Fjármagnsliðir voru nú neikvæðir um kr. 25 millj. samanborið kr. 36 millj. árið 2003.

Félagið fjárfesti fyrir kr. 305 millj. fyrstu 9 mánuðina og er þar m.a. um að ræða loðnukvóta, fiskvinnslubúnað og ný tæki í fiskimjölsverksmiðju og flokkunarstöð fyrir uppsjávarfisk.

Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.384 millj., sem er 47% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir voru kr. 1.184 millj. og hækkuðu um kr. 141 millj. á tímabilinu.

Þriðji ársfjórðungur varð félaginu mjög óhagstæður m.a. annars vegna þess að lítið veiddist af kolmunna í ágúst og september, verð á fiskimjöli fór lækkandi vegna mikils framboðs á sama tíma og olíuverð hækkaði stöðugt á heimsmarkaði. Þá hefur afkoma í freðfiskframleiðslu verið slök á árinu og gengisþróun óhagstæð.

Afkoma félagsins á síðasta ársfjórðungi ræðst einkum af veiðum og vinnslu á síld.



Sjá milliuppgjör undir ársskýrslur.