Það hefur verið mikið að gera í síldinni hjá Loðnuvinnslunni h/f á Fáskrúðsfirði undanfarnar vikur. LVF hefur tekið á móti 3600 tonnum af síld sem nánast öll hefur farið í söltun. Búið er að salta í 16000 tunnur á fjórum vikum, sem skiptist þannig að 13000 tunnur hafa verið saltaðar af flökum og 3000 tunnur af heilli síld, sem flökuð verður eftir áramót. Þegar er búið að afskipa 5600 tunnum af flökum og 800 tunnur fara í næstu viku. Síldin hefur verið flutt út til Svíþjóðar, Danmerkur og Bandaríkjanna. Það hefur því verið mikið álag á starfsfólki LVF, sem unnið hefur á vöktum allan sólarhringinn. Það var því ákveðið að stoppa Hoffell yfir helgina, til þess að fólk geti gert sér örlítinn dagamun. Og í kvöld ætlar 90 manna hópur frá LVF að bregða sér til Neskaupstaðar til þess að taka þátt í Rokkveislu Brján og Egilsbúðar „Glímt við þjóðveginn“, borða góðan mat og dansa fram á nótt.