Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 6 mánuði ársins 2004 nam kr. 1,6 millj. eftir skatta, en var tæpar kr. 43 milljónir á sama tímabili árið 2003.


Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr.1.354 millj. og lækkuðu um 1% miðað við árið á undan. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 155 millj., sem er 11,4% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 118 millj eða 9% af tekjum. Til samanburðar var fjármunamyndunin kr. 162 millj. eða 12% af veltu hálft árið 2003. Afskriftir voru kr. 109 millj. og höfðu lækkað um kr. 40 millj. frá fyrra ári. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um kr. 42 millj., en voru aðeins neikvæðir um kr. 58 þúsund á hálfa árinu 2003.


Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.437 millj., sem er 45% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um 5% á milli ára. Nettó skuldir LVF í lok tímabilsins voru kr. 1084 millj. og höfðu lækkað um kr. 21 millj. miðað við sama tíma 2003.


Annar ársfjórðungur varð LVF mjög óhagstæður. M.a. gat Hoffell ekki hafið kolmunnaveiðar fyrr en um miðjan maí vegna tjóns á skrúfubúnaði. Lækkandi verð á fiskimjöli og hátt olíuverð skertu afkomu félagsins til muna og freðfiskframleiðslan átti undir högg að sækja.


LVF tók á móti 72.000 tonnum af hráefni á tímabilinu, sem er minnkun um 6000 tonn. Aflinn skiptist þannig: Kolmunni 41.000 tonn, loðna 27.000 tonn, síld 2200 tonn og 1800 tonn af bolfiski.


Nú er unnið að því að setja upp nýjan framleiðslubúnað í frystihús LVF á Fiskeyri og er ætlunin að ná fram aukinni hagkvæmni og sjálfvirkni við framleiðsluna.


Afkoma félagsins á seinni hluta ársins ræðst m.a. af því hvernig veiðar á kolmunna og síldarvertíðin koma til með að ganga, þróun olíuverðs og af verðlagi afurða á erlendum mörkuðum.