Tveggja vikna sumarfrí er í frystihúsinu og var síðasti vinnudagur 22. júlí og verður byrjað að vinna aftur mánudaginn 9. ágúst. Ljósafellið er líka stopp í tvær vikur, en það fer aftur á veiðar þriðjudaginn 3. ágúst. Á meðan þessi stöðvun varir er verið að gera umfangsmiklar breytingar á frystihúsinu. Meðal þess sem er breytt er að önnur flæðilína mun fullkomnari en sú sem fyrir var verður sett niður, ásamt forskurðarvél. Við þessar breytingar skapast möguleikar til að taka upp einstaklingsbónus. Þá verður settur upp nýr hausari og sótthreinsunarkerfi frá DIS. Samfara þessum breytingum hefur þurft að gera umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi frystihússins. Seinni partinn í sumar og í haust verður sett niður flökunarvél, innmötunarkerfi úr móttöku að vélum, lausfrystir og hráefnisflokkari.