Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á fyrsta ársfjórðungi 2004 varð kr. 55 millj. eftir skatta, en var kr. 57 millj. á fyrsta ársfjórðungi 2003.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 793 millj. og voru 17% hærri en á sama tímabili 2003. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 148 millj., sem er 19% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 121 millj. eða 15% af tekjum. Afskriftir voru kr. 54 millj. og höfðu lækkað um kr. 21 millj. Fjármagnsliðir voru nú neikvæðir um kr. 26 millj., en voru jákvæðir um kr. 44. millj. á sama tíma fyrir ári.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.496 millj., sem er 45% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um 4% á milli ára. Nettóskuldir Loðnuvinnslunnar í lok tímabilsins voru kr. 916 millj. og höfðu lækkað um kr. 189 millj. á síðustu 12 mánuðum. Fyrstu þrjá mánuði ársins tók Loðnuvinnslan á móti 33.500 tonnum af loðnu og kolmunna, frysti um 2600 tonn af loðnu og 320 tonn af loðnuhrognum, auk hefðbundinnar bolfiskframleiðslu, söltunar og eftirflökunar á síld.
Hægt er að skoða milliuppgjör undir ársreikningar.