Mikið hefur verið um síldarlandanir undanfarna daga á Fáskrúðsfirði og því mikið annríki hjá starfsfólki LVF. Síldin sem flökuð hefur verið er bæði unnin í saltflök og bita, og einnig hafa flökin verið fryst. Þá hefur síldin verið söltuð bæði heil og hausskorin. Í dag landaði Víkingur AK 100 um 388 tonnum af síld og fóru 126 tonn til manneldisvinnslu. Það sem af er vertíðinni hafa borist til Fáskrúðsfjarðar um 2200 tonn af síld, sem er mun meira en á sama tíma í fyrra.
Í dag er verið að afskipa um 1300 tonnum af fiskimjöli um borð í flutningaskipið Westerland og flytur skipið það til Danmerkur.