Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f kr. 72 millj. á fyrsta ársfjórungi.

Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði á fyrsta ársfjórungi 2003 varð kr. 72 millj. eftir skatta.


Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 678 millj., en rekstrargjöld kr. 562 millj. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 117 millj., sem er 17% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 103 millj. eða 15% af veltu. Afskriftir voru kr. 76 millj., en fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 44 millj. fyrst og fremst vegna styrkingar íslensku krónunnar.


Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.432 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði eigið fé félagsins hækkað um kr. 90 millj. frá áramótum. Nettóskuldir Loðnuvinnslunnar í lok tímabilsins voru kr. 1.105 milljónir.


Töluverður tekjusamdráttur varð á fyrsta ársfjórðungi m.a. vegna áhrifa gengisbreytinga og mun minni loðnuafla til fiskimjölsverksmiðjunnar, en hún tók á móti 27 þús. tonnum á vertíðinni, en 48 þús. tonnum á vetrarvertíð 2002.


Það sem af er árinu (18. maí) hefur verksmiðjan samt sem áður tekið á móti 52 þús. tonnum af hráefni, sem er sama magn og á þessum tíma árið 2002, því til viðbótar loðnunni hefur verksmiðjan tekið á móti 25 þús. tonnum af kolmunna í vor.