Ljósafell Su 70 hefur átt sviðið að undanförnu. Ástæða þess er mörgum kunn, en hún er sú að skipið hefur verið í 50 ár við veiðar, og ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að breytast á næstunni.
Ljósafell hefur verið aflasælt og áhafnir síðustu fimm áratugina hafa gengið um skipið af virðingu og natni og útgerð þess hefur séð til þess að það hefur fengið reglulega yfirhalningu.
Þegar skipið hélt til veiða fimmtudaginn 19.október sýndu tölur að heildaraflinn sem það hafði dregið úr sjó sló í 200.000 tonn, er hér átt við óslægðan fisk. Til gamans má geta þess að þegar Ljósfell var 25 ára þá var heildaraflinn 86.000 tonn, þannig að síðari hluti áranna 50 hafa verið heldur fengsælli. Eflaust mætti tala eitthvað um veiðiheimildir og slíkt í þessu samhengi en það verður ekki gert að sinni.
Ólafur Helgi Gunnarsson var á Ljósafelli í fjóra áratugi, lengst af sem skipstjóri og á hann því sinn hlut í öllum þessum 200.000 tonnum en hann var snöggur upp á lagið og sagði ákveðin: „Svona lagað er bara gert með góðum mannskap“. Og svo bætti hann því við að allt sem viðkæmi þessu skipi hefði verið, og væri enn, gott fyrir samfélagið.
Það eru mikil verðmæti í fiski, enda herramanns matur, og ætla má að aflaverðmæti allra þessara tonna séu á bilinu 50 til 60 milljarðar á núvirði.
Ólafur Helgi fyrrverandi skipstjóri og Hjálmar Sigurjónsson núverandi skipstjóri héldu upp á tímamótin með öðrum áhafnarmeðlimum og gestum. „Gott er að borða gulrótina“ segir í söngtexta einum og mun það rétt vera en það er líka gott að borða köku, sér í lagi í góðum félagsskap og af góðu tilefni og það var gert í borðsalnum á Ljósafellinu þegar Loðnuvinnslan bauð upp á köku, fallega skreytta með mynd af Ljósafelli og afar bragðgóða.
„Þetta er gott skip“ sagði Ólafur Helgi og bætti við: „það mun ekki endast að eilífu, en það á nóg eftir enn“. Og ef að líkum lætur munu koma fleiri tímamót til þess að gleðjast yfir.
BÓA
Þær eru bæði fallegar og góðar kökurnar frá Sumarlínu. Ljósmynd: Friðrik Mar
Hjálmar Sigurjónsson og Ólafur Helgi Gunnarsson hjálpast að við að skera kökubita handa gestum og gangandi. Ljósmynd: Friðrik Mar