Hoffell er á landleið með um 650 tonn af síld. Verður skipið í heimahöfn á Fáskrúðsfirði um kl. 19.00 sunnudaginn 17.nóvember.

Er þetta fyrsti túr Sigurður Bjarnasonar skipstjóra á Hoffelli við veiðar á íslenskri síld. Að því tilefni sló greinarhöfundur á þráðinn til Sigurðar þar sem Hoffell var á siglingu úti fyrir Stokksnesi.  Þegar skipstjórinn var spurður um hvernig túrinn hefði gengið svaraði hann: “Ekkert sérstaklega vel, við lentum í brasi með veiðafærin og þurftum að skipta um troll í miðjum túrnum” og það ku vera nokkuð bras að gera slíkt á hafi úti.  “Svo lentum við í brælum inná á milli svo að þess túr var nokkuð brösóttur” bætti Sigurður við. En það var enginn vonleysis tónn í skipstjóranum, “það fer vel um okkur um borð og skipið er gott, þó svo það hefði mátt ganga betur”.

Síldin er 310 til 340 grömm að þyngd og þykir það meðalfiskur fyrir íslenska stofninn og var aflinn fenginn djúpt vestur af Reykjanesi. Aflinn fer allur til söltunar.

Sigurður reiknar með u.þ.b tveimur dögum í löndun og síðan verður stefnan tekin aftur á miðin og þá er viðbúið að allt muni ganga betur.

BÓA

Sigurður Bjarnason skipstjóri