Sjóðarinn
Forsjóðarinn

Heilmikil endunýjun á tækjum og búnaði stendur nú yfir í Bræðslunni.  Í nóvember s.l kom nýr forsjóðari  sem leysir af hólmi tæki sem orðin voru slitin og úr sér genginn. Til að knýja forsjóðarann er nýtt svo kölluð  afgangsorka frá öðrum tækjum.   Forsjóðari þessi var smíðaður hjá Héðni í Reykjvík.

Í dag kom svo nýr sjóðari sem var smíðaður í Harslev í Danmörku. Er þetta heljarmikið tæki sem vegur um 50 tonn og kemur í stað þriggja sjóðara sem voru orðnir meira en 40 ára gamlir. Gömlu sjóðararnir voru keyptir notaðir í Bræðsluna þegar hún var byggð fyrir 22 árum síðan, þannig að þeir hafa þjónað sínu hlutverki vel.  Þegar greinarhöfundur leit við í Bræðslunni í dag voru starfsmenn í óða önn við að koma þessu afar stóra tæki inn í hús þar sem það verður tengt og tekið til notkunar við fyrsta tækifæri.  Aðspurður sagði Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri að töluverð endurnýjun hefði átt sér stað í öllum búnaði Bræðslunnar á undanförnu og nýi forsjóðarinn og sjóðarinn væri liður í því.  “Græjurnar voru orðnar gamlar og slitnar og allt er þetta liður í endunýjun, við erum að breyta og bæta” sagði Magnús.

Þá er verið að setja nýja sjólögn  út frá Bræðslunni.  “Það er verið að setja eina djúplögn í stað tveggja grinnri” sagði Magnús og bætti því við að þetta væri afar mikilvægt við manneldisvinnslu og þá sér í lagi við hrognavinnsluna. En við vinnslu á hrognum er lykilatriði að nota mikið af ferskum sjó. Mun því nýja lögnin ná enn lengra út í sjó og liggja mun dýpra sú en sem hún mun leysa af hólmi. Við enda lagnarinnar er svo þriggja metra há sjósía sem sér til þess að sjórinn sem notaður verður sé vel síaður og þar að auki verður nýtt geislatæki við lögnina í landi sem geislar allan sjó sem nýttur verður við manneldisvinnslu og getur geislað 400 tonn á klukkustund.

 

BÓA