Lars Gunnarsson, Friðrik Mar Guðmundsson, Alberta Eide Guðjónsdóttir, Valur Sveinsson, María Ósk Óskarsdóttir og Grétar Helgi Geirsson

Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar sem haldinn var í Wathnessjóhúsinu þann 15.maí  voru afhentir styrkir til félagasamtaka  að upphæð tæplega 16 milljónir króna.  Björgunarsveitin Geisli hlaut 1 milljón króna í styrk til reksturs á björgunarskipinu Hafdísi.  Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla tók við styrknum og þakkaði Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og sagði að gott væri að eiga bakhjarl sem „vissi að það er dýrt að vera í útgerð“.  Hafdís hefur sem betur fer ekki þurft að sinna mörgum aðkallandi björgunarverkum, þótt önnur verkefni séu ærin, en Hafdísin sannaði þó mátt sinn og megin og var langfyrst á vettvang þegar stórt flutningaskip strandaði við Vattarnes á síðasta ári.  Fyrir Fáskrúðsfjörð sem og aðra Austfirðinga sem eiga synir og dætur á sjó er björgunarbáturinn Hafdís  mikið öryggistæki.  Grétar sagði að styrkur Loðnuvinnslunnar færi í almennan rekstur bátsins og nefndi sem dæmi tryggingar, botnhreinsun og almennt viðhald en allt kostar þetta mikla peninga.

Þá fengu félagasamtök um Franska daga 800 þúsund kónur eins og sagt var frá með styrkjum Kaupfélagsins.  Loðnuvinnslan hefur styrkt Franska daga frá upphafi og er stoltur stuðningsaðili.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir króna í styrk til sinnar starfssemi.  Alberta Eide Guðjónsdóttir tók við styrknum fyrir hönd Starfsmannafélagsins og sagði styrkinn afar mikilvægan fyrir félagið. „Við værum ekki að fara neitt, eða gera neitt, ef þessa styrks nyti ekki við“ sagði Alberta og vísaði í fyrirhugaða ferð Starfsmannafélagsins til Póllands í haust.  Starfsmannafélagið hefur verið iðið að skipuleggja lengri og skemmri ferðir fyrir sína félagsmenn og styrkur Loðnuvinnslunnar gerir það að verkum að hver félagsmaður þarf að greiða umtalsvert minna úr eigin vasa.

Þá fékk Knattspyrnudeild Leiknis 8 milljónir króna í styrk.  Loðnuvinnslan hefur verið helsti styrktaraðili Knattspyrnudeildar Leiknis um áraraðir.  Styrkurinn felst í búningakaupum, láni á rútu LVF (sem á stundum gengur undir nafninu Leiknisrútan, með slíkum ágætum er samstarfið), auk fjárstyrks.  Valur Sveinsson tók við styrknum fyrir hönd Knattspyrnudeildarinnar og stjórn þeirrar sömu deildar þakkar Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og tryggðina i gegn um árin og segir að styrkur LVF geri gæfumuninn á rekstri deildarinnar.