Vinnsla

Loðnuvinnslan starfrækir fjölbreytta vinnslu í landi, bolfiskvinnslu, uppsjávarfrystingu, síldarsöltun og mjöl og lýsisvinnslu. Mikil uppbygging hefur verið ár árinu 2016 og má þar helst nefna nýjan frystiklefa sem rúmar 7000 tonn af afurðum og nýja fullkomna vinnslulínu frá Völku sem tekur við forsnyrtum flökum og sker þau í bita, flokkar í mismunandi afurðaleiðir, pakkar í kassa, leggur plast yfir, skammtar ís, merkir kassann og lokar honum , allt á sjálfvirkan hátt. Með þessum breytingum er Loðnuvinnslan ekki einungis að auka afkastagetuna en tæknin mun jafnframt setja fyrirtækið í lykilstöðu til að mæta síauknum kröfum markaðarins um fjölbreyttari vörur.

Botnfiskvinnsla

Í botnfiskvinnslu LVF er lögð áhersla á framleiðslu flaka og flakastykkja úr þorski, ýsu og ufsa. Fiskiðjuverið framleiðir bæði frystar og ferskar afurðir allan ársins hring. Ferskar afurðir eru sendar með kæligámum og flugi á erlenda markaði en frystu afurðirnar eru fluttar út í frystigámum.

Uppsjávarvinnsla

LVF rekur uppsjávarfrystihús á Fáskrúðsfirði sem er sérhæft til vinnslu á uppsjávarfiski: loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst á markaði í Austur-Evrópu og Asíu, einnig er unnin hrogn úr henni á sömu markaði. Makríll er flakaður, heilfrystur og/eða hausaður og slógdreginn. Síldin er ýmist heilfryst eða unnin úr henni frosin samflök, bitar eða flök. Síldin er líka söltuð í bita, samflök og heilflök fyrir markaði í Evrópu. Vinnslan er vertíðarbundin. Vinnsla á loðnu og loðnuhrognum fer fram frá janúar til mars, vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld frá júlí til október og vinnsla í íslenskri síld frá október til ársloka.

Mjöl- og lýsisvinnsla

LVF starfrækir fiskimjölsverksmiðju á Fáskrúðsfirði sem notar rafmagn frá endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þar er einnig efnarannsóknastofa þar sem framkvæmdar eru mælingar á ferskleika, fituinnihaldi og fleiru við löndun. Eftir vinnslu er fiskimjöl og lýsi einnig efnagreint og metið í gæðaflokka. Verksmiðjan vinnur aðallega úr kolmunna, fráflokki frá vinnslu og loðnuhrati. Meginhluti afurðanna er notaður í fóðurgerð en verksmiðjan hefur einnig leyfi til framleiðslu á lýsi til manneldis.