Ljósafell SU 70 hefur verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri. Og er það vel, því ýmsum áföngum hefur það náð sem vert er að fjalla um. Núna er það vélin sem knýr þetta fagra fley áfram. Vélin sem er af gerðinni Niigata er komin í 200.000 klukkustundir. Þeim áfanga var náð þann 12.desember s.l kl. 13.03. En hvað þýðir það fyrir þann sem ekki hefur þekkingu á skipsvélum og endingartíma þeirra? Jú það þýðir að vélin hefur verið í gangi í 200.000 klukkustundir síðan hún var sett í skipið í nóvember 1988 í Gdynia í Póllandi. Til að setja þetta í aðeins meira samhengi fyrir áhugasama þá er þessi tími jafngildi þess að vélin hafi verið stanslaust í gangi í rúm 22 ár af þessum 36 síðan hún var sett í. Til að setja hlutina í enn frekara samhengi er hægt að setja þetta upp á þann hátt; að ef fjölskyldubílunum væri ekið á 60 kílómetra hraða á klukkustund í 200.000 klukkutíma væri hann kominn í 12 milljón kílómetra á mælinum. Það er mikið.
Þvílíkar tölur þykja líka háar á skipsvél, en hvað veldur því að hún hefur enst svona vel?
Högni Páll Harðarson var vélstjóri á Ljósfelli þegar vélin var sett um borð og hann svaraði aðspurður að grunnhönnun vélarinnar væri mikilvægur þáttur, „það er ekki allur búnaður byggður til að endast“ sagði hann og bætti því við að góð umhirða, eftirlit og tímanlega útskipti á slithlutum væri mikilvægur þáttur fyrir heilsu véla.
Kristján Birgir Gylfason er yfirvélstjóri á Ljósafelli og hefur sömu sögu að segja varðandi vélina, þ.e.a.s. hún sé vel smíðaður gripur, „það eru allir íhlutir í þessari vél sverir og sterkir sem þýðir að þeir þola meira álag“ sagði Kristján Birgir. Hann sagði líka að vélin væri hönnuð til þess að ganga 310 snúninga en hann, og hinir vélstjórarnir, létu hana aldrei ganga meira en 280 snúninga. Þegar Kristján Birgir var spurður að því hvort að hann teldi að vélin gæti gengið í mörg ár í viðbót svaraði hann því til að það væri svo sem ekkert sem benti til annars. „Það gæti farið að verða svolítið erfitt að fá varahluti því að hún er jú komin til ára sinna þrátt fyrir að vera við hestaheilsu“ sagði Kristján og bætti því við að það hefði aldrei verið sparað í viðhaldi við þessa vél og ávallt hugsað vel um allar hennar þarfir og því dygði hún svo vel.
Þegar Ljósafell lagðist við bryggju eftir síðasta túr fyrir jól, stóð vélin í 200.041,9 klukkustundum. Nákvæmur teljari heldur utan um tímana, og hann gerir greinilega ekki ráð fyrir svona mikilli notkun því að teljarinn getur aðeins talið upp í 99.999, og þegar þeirri tölu er náð hrekkur hann aftur á byrjunarreit, svo að útsjónarsamir vélstjórar hafa gripið á það ráð að setja límmiða fyrir framan með viðeigandi tölu
Það skiptir máli að gleðjast og fagna stóru sem smáu. Og samkvæmt hefð Loðnuvinnslunnar var áhöfn og gestum Ljósfells boðið upp á köku í tilefni áfangans. Og svo eru jólin á næsta leiti og því stóð áhöfn Ljósafells í því að hengja falleg ljós á hina öldnu hefðardömu hafsins, því Ljósafell skal skarta sínu fegursta.
BÓA
Verið að taka vélina úr umbúðum. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson
Verið að hífa um borð. Vélin lætur ekki mikið yfir sér þarna í lausu lofti en hún vegur engu að síður 30 tonn. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.
Það er ekki létt verk að koma vél á sinn stað. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson
Mælirinn góði sem heldur utan um vinnustundir vélarinnar. Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Frá vinstri: Kristján Birgir Gylfason yfirvélstjóri, Pétur Kristinsson 1.vélstjóri og Þorvaldur Már Elíasson yfirvélstjóri á móti Kristjáni. Ljósmynd: Kjartan Reynisson. Gaman er að geta þess að engin þessara herramanna var fæddur þegar vélin var sett niður árið 1988.