Tækni fleygir fram. Öll mannanna verk eru í sífelldri þróun og nýjar og bættar útgáfur af því sem fyrir var og er,  koma fram, auk þess sem ný sköpun verður til.  Í sjávarútvegi hefur mikil þróun á sér stað, allt frá skipum og bátum til lokavinnslu hráefnisins og þurfa fyrirtæki í þessum geira ávallt að vera á tánum, fylgjast vel nýjungum og taka þátt í ferlinu og er Loðnuvinnslan þar engin undantekning.

Um jól og áramót hefur Hoffell Su 80 verið í slipp á Akureyri.  Það þarf að ditta að einu og öðru eins og gengur á skipi sem mikið er notað og þá er tilvalið að nota tíma þegar áhöfnin tekur sér frí til þess að njóta hátíðarinnar með sínu fólki.  Auk almenns viðhalds á skipinu er verið að taka fyrsta skrefið í að koma fyrir enn einni  tækninýjunginni.  Um er að ræða svo kallaða MLD toghlera (Trawl steering system) frá dönskum framleiðanda.  Þetta eru stýranlegir toghlerar fyrir flottroll sem stjórna má úr brúnni með tölvu.  Virka þessir toghlerar með þeim hætti að hægt er að stilla opnunina á trollinu  í sjónum með aðgerð í tölvu.  Í hlerunum eru lokur sem minna á flapsa á flugvélavæng sem hægt er að hreyfa og þannig stilla hversu mikið  eða lítið opið er.  Skrefið sem stigið er í slippnum að þessu sinni er að koma fyrir botn stykki undir skipinu sem gegnir hlutverki sendis og móttakara. Frá þessu stykkir þarf svo að koma stjórnköplum í brúnna og hleðsluköplum aftur í skut því allt gengur þetta fyrir rafmagni. Þegar þetta verður allt klárt verður hægt að koma toghlerunum sjálfum fyrir og verður það væntanlega gert strax á nýju ári. 

Tæknifólk segir að stýranlegir toghlerar séu framtíðin í flottrollsveiðum, þeir minnki slit á skipum og veiðafærum auk þess sem möguleiki skapast til þess að auka afköst og spara eldsneyti á sama tíma. Og það er árangur sem allir ættu að vera sáttir við. 

BÓA

ndHoffell í slippnum á Akureyri. Mynd: Kjartan Reynisson
Hoffell í slippnum á Akureyri. Mynd: Kjartan Reynisson
MLD toghlerar. Mynd fengin á heimsíðu MLD.
Botn stykki sem gengir hlutverki sendis og móttakara. Mynd: Kjartan Reynisson